Á hverju ári í október er bleik vika hjá Tupperware Nordic og er þá seld ákveðin vara til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameini. Sölufulltrúar Baluba á Íslandi og þeirra hópstjórar ákváðu hins vegar þetta árið að styrkja Kraft með sölu á bleikum sleikjum.
„Við sem sjáum um sölu og dreifingu á Tupperware/Baluba Íslandi ákváðum öll í sameiningu að styrkja Kraft þetta árið. Við vildum að peningarnir myndu renna til félags sem er með félagsstuðning við krabbameinsveikt fólk. Þegar sonur vinkonu minnar greindist t.a.m. fyrir fjölda mörgum árum með krabbamein, þá 18 ára, var ekkert félag til eins og Kraftur og ég veit hvað það hefði hjálpað honum og fjölskyldu hans mikið að hafa stuðningssamtök eins og Kraft á þeim tíma,“ sagði Gunnhildur Stefánsdóttir, gullhópstjóri Tupperware á Íslandi við afhendingu styrksins.
Seldar voru bleikar og svartar sleikjur til styrktar Krafti. 10% af hverri sölu rann til Krafts og gekk salan vonum framar. Alls söfnuðust 470.000 krónur til styrktar félaginu og ákvað hópurinn að styrkja Neyðarsjóð Krafts. Neyðarsjóðnum er ætlað að styrkja ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og lenda í fjárhagslegum erfiðleikum vegna veikinda sinna.
Einnig má geta þess að nokkrir sölufulltrúar bættu um betur og af öllum bleikum vörum sem þeir seldu í október gáfu þeir af sínum sölulaunum og létu renna til Krafts. Sú upphæð bættist ofan á þá upphæð sem upprunalega var safnað með sölu á sleikjunum.
Stjórn og starfsfólk Krafts þakkar hópstjórum og ráðgjöfum Tupperware/ Baluba Íslandi innilega fyrir stuðninginn sem og öllum þeim sem að versluðu sleikjur af þeim og studdu þar með við Neyðarsjóð Krafts.
Á myndinni má sjá hópstjórana Gunnhildi Stefánsdóttur, Jóhönnu Auði Vilhjálmsdóttur og Rögnu Júlíusdóttur afhenda Huldu Hjálmarsdóttur, framkvæmdastjóra Krafts, styrkinn.