Stuðningsfélagið Kraftur hlaut nýverið 500.000 krónur að styrk frá Sigurði Ingvarssyni og fjölskyldu í Garði. Sigurður hefur um árabil séð um að tengja ljósakrossa í kirkjugarðinum að Útskálum og látið gjaldið sem hefur verið tekið fyrir þjónustuna renna til góðra málefna. Í ár lét hann þjónustugjaldið renna til Krafts.
Sigurður og fjölskylda láta styrkinn renna til Krafts í minningu sonar og bróður, Sigurðar sem var fæddur 4. október 1970 og lést 22. desember 1985. Styrkurinn fer í minningarsjóð Krafts sem að styrkir aðstandendur til að standa straum af útfararkostnaði þegar félagsmaður Krafts fellur frá vegna krabbameins eða afleiðingum þess. „Mér þykir ótrúlega vænt um að Sigurður og fjölskylda hafi hugsað til Krafts þetta árið. Ég hef þekkt þau í fjölda mörg ár og þau hafa fylgst með baráttu minni við krabbamein. Þau höfðu samband við mig og sögðu mér að Kraftur og ég stæði þeim næst á þessu ári. Ég er óendanlega þakklát fyrir að þau hafa hugsað til mín og viljað hjálpa mér og öðrum sem eru í svipuðum sporum,“ sagði Sóley Björg Ingibergsdóttir, félagskona í Krafti, sem tók við styrknum frá Sigurði og fjölskyldu.
Stjórn og starfsfólk Krafts þakkar Sigurði og fjölskyldu heilshugar fyrir þennan rausnarlega styrk og að hjálpa okkur að standa við bakið á aðstandendum sem að missa ástvin sinn úr krabbameini. Um leið og við þökkum fjölskyldunni óskum við þeim gleðilegra jóla.