Í gær, fimmtudaginn 22. júní, var árlega Sumargrill Krafts haldið með pompi og prakt í Guðmundarlundi í Kópavogi. Þrátt fyrir heldur “íslenskt sumarveður” með rigningu og vindi mættu um 200 manns og nutu stundarinnar saman.
Sirkus Íslands sá um andlitsmálun og blöðrudýr fyrir börnin. Tveir hestar frá Krakkahestum voru á staðnum þar sem börnin fengu að fara á bak og voru teymd stutta vegalengd. Að sjálfsögðu voru hoppukastalar og Instamyndir á svæðinu. Hamborgarabúlla Tómasar grillaði borgara ofan í alla viðstadda og Ölgerðin sá um drykki. Ísbíllinn mætti á svæðið og sáu sjálfboðaliðar um að poppa fyrir hópinn í glæsilegri poppvél frá Sirkus Íslands.
Leikhópurinn Lotta mætti með skemmtilegt atriði úr ævintýraskógi Lottu þar sem flutt var brot af því besta í gegnum árin. Margir fengu svo myndir af sér með karakterunum, sem vakti mikla lukku. Að lokum tók brekkusöngs meistarinn og söngvari Stuðlabandsins, Magnús Kjartan, nokkur vel valin lög og sendi alla syngjandi glaða heim.
Stjórn og starfsfólk Krafts vill þakka sjálfboðaliðum sem komu og aðstoðuðu, öllum þeim sem komu á Sumargrillið og að sjálfsögðu öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við að gera Sumargrillið að svona frábærum viðburði án ykkar hefði þetta aldrei tekist.
Hér má sjá nokkrar myndir frá þessum dásamlega degi.