Minningarleikur fór fram nýverið á Vogaídýfuvelli í Vogum á Vatnsleysuströnd, en leikurinn var í minningu Haralds Hjalta Maríusonar sem lést úr krabbameini aðeins 21 árs gamall.
Haraldur greindist með krabbamein í nefkoki árið 2020 og fór þá í geisla, tvær skurðaðgerðir og lyfjagjafir. Allt gekk vonum framar og var lyfjaleggur fjarlægður rétt fyrir jólin. Haraldur var mjög hress og fór beint í það koma sér í líkamlegt form og gekk eins og í sögu. Hann æfði hnefaleika og keppti bæði hér heima sem og erlendis árið 2021. Í byrjun árs 2022 greindist hann aftur og gekk þá illa að ráða við sjúkdóminn og lést Haraldur einu og hálfu ári eftir seinni greiningu.
Haraldur var félagslega sterkur allan tímann sem hann var veikur, þrátt fyrir að vera mishress. Vinir hans voru honum alltaf innan seilingar og ákvað þessi tryggi vinahópur að spila minningarleik honum til heiðurs í ágúst síðastliðnum. Mörg þekkt andlit tóku þátt í viðburðinum og söfnuðust alls 630.000 kr. sem María Vilborg Ragnarsdóttir, móðir Haralds ákvað að myndu renna til styrktarsjóðs Krafts.
Starfsmenn og stjórn Krafts þakkar þessum flotta hóp kærlega fyrir að hafa hugsað til Krafts og styðja við félagið og starf þess í þágu ungs fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur.
(Ljósmyndir: Helgi Þór Gunnarsson)