Á dögunum tók hópur manna sig saman og ákvað í aðdraganda Reykjavíkurmaraþonsins að hlaupa fyrst fimm maraþon á fimm dögum áður en þeir skelltu sér í maraþonið sjálft. Hópurinn sem kallar sig HHHC hófu hlaupið sitt á Akureyri og skiptust svo á að hlaupa sem leið lá til Reykjavíkur.
Hópurinn lagði af stað mánudaginn 14. ágúst en lokaspretturinn var tekinn á föstudeginum sem endaði í Laugardalshöll á Fit & run sýningunni sem haldin er ár hvert í aðdraganda maraþonsins. Sjötta maraþonið var svo hlaupið í sjálfu Reykjavíkurmaraþon. Ekki nóg með það að hlaupa sex maraþon á sex dögum þá hlupu þeir allan tímann í Boss jakkafötum en Pétur forsprakki hópsins vinnur í Bossbúðinni.
„Við erum stoltir af því að hafa hlaupið fyrir Kraft. Þau vinna ómetanlegt starf og hafa reynst ótal mörgum fjölskyldum styrkur í gegnum erfiða baráttu við krabbamein. Við viljum þakka stuðningsaðilum okkar fyrir magnaða aðstoð og margvísleg framlög sem gerðu okkur þetta kleift. Hraðinn skipti ekki máli í þessu hlaupi heldur lögðum við okkur alla fram og snyrtilegur klæðnaður var í fyrirrúmi. Við minnum samt á að HHHC er hraðasti hlaupahópur landsins og um leið sá fallegasti, a.m.k. ef við erum spurðir!, sagði Pétur.
„Við hlupum fyrir Kraft og í minningu Ingu Hrundar Kjartansdóttur, sem lést aðeins 37 ára af völdum krabbameins. Inga Hrund var eiginkona Rúnars Marínós Ragnarssonar, sjúkraþjálfara og félaga okkar, og móðir tveggja ungra dætra. Hennar er sárt saknað af öllum en minning hennar er björt og falleg. Við vildum að auki tileinka hlaupið okkar öllum ungum fjölskyldum sem hafa þurft að glíma við krabbamein,“ bætti Pétur við.
Stjórn og starfsfólk Krafts vill þakka HHHC hópnum fyrir ómetanlegan stuðning og velvilja í garð félagsins og félagsmanna þess sem og öllum þeim sem studdu hópinn. Náðu þeir að safna 8.414.449 kr sem var mest allra hlaupahópa í Reykjavíkurmaraþoninu.