Skip to main content

Óskabrunnur Krafts

By 2. desember 2024desember 4th, 2024Fréttir

Það gleður okkur að segja frá að nú er búið að opna fyrir umsóknir í Óskabrunn Krafts!

Við vitum að þegar maður er ungur og greinist með krabbamein er áfallið mikið og getur vegferðin oft á tíðum verið erfið. Óskabrunnur Krafts er 25 ára afmælisgjöf Krafts til félagsmanna sinna en honum er ætlað að létta líf greindra félagsmanna sem eru inniliggjandi á heilbrigðisstofnun vegna meðferðar eða afleiðinga veikindanna eða njóta aðhlynningar í heimahúsi.

“Óskirnar geta í raun verið allt sem fólki dettur í hug og gæti skapað jákvæða upplifun og góðar minningar. Meginmarkmið með tilkomu Óskabrunnsins er að auka þjónustu við félagsmenn okkar og mæta ólíkum þörfum þeirra. Að auki vonumst við til að fá betri innsýn í þarfir okkar félagsmanna sem eru inniliggjandi á spítala eða njóta aðhlynningar í heimahúsi”, segir Þórunn Hilda Jónsdóttir, viðburða – og þjónustustjóri Krafts.

Við hjá Krafti munum leggja okkur fram eftir fremsta megni við að verða við þeim óskum sem félaginu berast. Við gerum okkur þó auðvitað grein fyrir að það verður erfitt að uppfylla sumar óskir, t.d. yrði erfitt fyrir okkur að fá Justin Bieber í heimsókn þar sem við höfum því miður ekki símanúmerið hans en við gætum mögulega þekkt einhvern sem kann lögin hans.

Dæmi um mögulegar óskir:
– Fá dekur, eins og nudd eða fótsnyrtingu
– Fá tónlistarmann í heimsókn
– Fá uppistandara til að kitla hláturtaugarnar
– Fá heimilisþrif svo heimilið bíði tandurhreint
– Jafnvel gæti félagsmaður farið í þyrluflug ef hann fær dagsleyfi

“Eins og fyrr segir þá munum við gera okkar besta til að uppfylla allar óskir og er markmið okkar að stækka hratt hugmyndabankann okkar. Því leitum við nú eftir góðum samstarfsaðilum fyrir þetta verkefni og biðlum til fyrirtækja og rekstraraðila sem gætu séð sér fært að leggja málefninu lið með vinnuframlagi eða með öðrum hætti, til að senda okkur línu á kraftur@kraftur.org” 

Félagsmönnum Krafts býðst að senda inn ósk í Óskabrunninn en einnig geta aðstandendur eða starfsfólk viðkomandi stofnana sent inn óskir fyrir hönd þeirra.

Veist þú um einhvern sem á skilið að fá ósk uppfyllta? Kynntu þér málið nánar hér.