
Fimmta Kröftuga strákastund Krafts var haldin í Fantasíusalnum á Vinnustofu Kjarval nú í lok mars mánaðar. Viðburðurinn var haldinn í tilefni af Mottumars, árlegu átaki Krabbameinsfélags Íslands. Fjölmennt var og stemning í salnum alveg mögnuð.
Markmiðið með viðburðinum var að karlmenn sem þekkja krabbamein af eigin raun eða sem aðstandendur – hvort sem um ræðir maka, son, föður, bróður, frænda, afa, vin eða samstarfsmann, hittist, deili reynslu sinni og heyri í öðrum jafningjum. Auk þess vildum við opna umræðuna um krabbamein enn frekar og veita ungum karlmönnum innsýn í starfsemi Krafts.
„Það er óþarfi fyrir hvern og einn sem greinist með krabbamein að ætla sér að „finna upp hjólið“ þegar kemur að því að takast á við þetta stóra verkefni. Það er hægt að leita í reynslubanka þeirra sem á undan hafa komið og nýta þá þjónustu sem Kraftur og Krabbameinsfélagið hafa byggt upp“, segir Þorri Snæbjörnsson, sálfræðingur Krabbameinsfélagsins og umsjónarmaður Stuðningsnetsins hjá Krafti.
Nokkrir hugrakkir ungir menn sem greinst hafa með krabbamein deildu sögum sínum, auk þess sem slegið var á létta strengi.
– Óli Eðvald Bjarnason, sagði frá því hvernig það var að greinast með krabbamein í ágúst 2023, þá 25 ára gamall. Hann sagði frá því að aðdragandi hefði verið að greiningu sinni og hvernig ákveðinn léttir fylgdi því að komast í meðferðarferli. Hann sagði frá hvernig ólýsanleg jákvæðni og æðruleysi hefði helst yfir hann, sem hefði hjálpað sér í gegnum verkefnið.
– Davíð Goði, veiktist óútskýranlega í byrjun árs 2024, þá 26 ára gamall. Hann talaði um þær blendnu tilfinningar sem hann upplifði þegar honum var ljóst að hann væri ekki með krabbamein en væri með sjaldgæfan sjúkdóm sem engin þekkt meðferð væri við. Davíð fór engu að síður í gegnum krabbameinsmeðferð sem endaði á stofnfrumumeðferð og mergskiptum í Svíþjóð. Í dag halda ákveðin lyf sjúkdómnum í skefjum og er Davíð hraustur. Hann horfir fram á bjarta framtíð og fetar sig í nýju föðurhlutverki.
– Anton Bjarki Olsen, fatahönnuður, sagði frá hvernig æxli í fætinum var upphaflega ranglega greint sem góðkynja, en síðar hafi komið í ljós að hann reyndist vera með sjaldgæfa tengund af krabbameini. Hann greindist sumarið 2024, þá 26 ára gamall, á meðan hann vann að nýjustu fatalínu sinni. Anton sagði frá hvernig hann tókst á við áskoranirnar sem fylgdu veikindunum og hvernig ákveðið æðruleysi fylgi því að ganga í gegnum svona lífsreynslu en hann reyndi að einblína allan tímann á það jákvæða fremur en neikvæða.
Í lokinn sagði Bolli Már Bjarnason, útvarspamaður á K100, frá reynslu sinni sem aðstandandi, auk þess að slá á létta strengi með uppistandi. Bolli lék eitt af hlutverkunum í nýjustu auglýsingu Mottumars og er því málefninu vel kunnugur.
Matti Ósvald, heilsufræðingur og markþjálfi Ljóssins og Þorri Snæbjörnsson, sálfræðingur Krabbameinsfélagsins og umsjónarmaður Stuðningsnetsins hjá Krafti, leiddu þessa kraftmiklu strákastund.
Við sendum okkar bestu þakkir til allra sem deildu reynslu sinni, til allra karlmanna sem mættu, til Matta og Þorra, Krabbameinsfélags Íslands og að lokum til Vinnustofu Kjarval sem styrkti viðburðinn.
Ljósmyndari: Róbert Arnar Ottason