Krabbamein og krabbameinsmeðferð getur haft áhrif á frjósemi bæði hjá konum og körlum. Krabbameinslæknirinn þinn getur upplýst þig um möguleika þína á að eignast barn. Það er mikilvægt að spyrja hann um allt er viðkemur möguleikum þínum til barneigna í framtíðinni jafnvel þótt þú hafir ekki hugleitt þau mál þegar þú greindist. Afar mikilvægt er að ræða þessi mál áður en lyfja- eða geislameðferð hefst.
Þú þarft að velta fyrir þér eftirfarandi spurningum og jafnvel spyrja lækninn þinn:
- Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig að eignast barn? Hverjar eru væntingar þínar?
- Munt þú geta eignast börn í framtíðinni?
- Eru horfur þínar nógu góðar til að þú getir leyft þér að vonast eftir að verða móðir/faðir í framtíðinni?
- Er óhætt fyrir þig að verða barnshafandi?