Sigvaldi Einarsson heiti ég og er 54 ára fjármálaráðgjafi. Sonur minn Bjarki er nú í líknandi krabbameinsmeðferð en hann greindist fyrir 5 árum með ristilkrabbamein. Ég er búinn að jarða tvo nátengda mér sem greinst hafa með krabbamein. Ég missti móður mína úr krabbameini þegar ég var 27 ára og þá var ég svona lokuð týpa og náði kannski ekki að kveðja eins vel og ég hefði viljað í dag. Ég var bara ungur og óþroskaður og það tók mig langan tíma að syrgja. Þegar sonur minn veikist þá var ég strax búinn að ákveða að halda ekki neinu inni – ekki birgja neinar tilfinningar inni heldur ræða þetta opið. Og það gerði ég líka þegar faðir minn greindist og síðar lést úr krabbameini. Ég tel það einstaklega mikilvægt að EKKI LÁTA NEITT ÓSAGT.
Ég vil ég líka taka fram að svona samskiptamiðlar eins og Facebook geta hjálpað ótrúlega. Þetta var ekki til þegar móðir mín lést árið 1990, samskipti voru þá mun þrengri hópum. Annað fólk vissi jafnvel ekki af andláti náins einstaklings fyrr en það sá andlátstilkynningu í Mogganum. En þau hjónin Ástrós og Bjarki ákváðu strax að vera mjög opinská um sjúkdóminn og tjá sig um hann bæði í bloggi og á Facebook. Svona fyrst fannst mér þetta svolítið óþægilegt því ég kem af kynslóð sem er ekki mikið að flíka tilfinningum en svo sá ég bara hvað þetta gerði mikið gagn fyrir þau og aðra.
Deildu þinni reynslu og þinni mynd því krabbamein kemur öllum við eða deildu minni mynd og sögu #deilduþinnireynslu #krabbameinkemuröllumvið #lífiðernúna