Kraftur og Krabbameinsfélag Borgarfjarðar hrundu af stað verkefninu „Lykkja fyrir lykkju“ árið 2020 og hvöttu alla sem sokki geta valdið til að taka þátt í verkefninu. Verkefnið fólst í því að prjóna sokka úr Merinó ull fyrir unga einstaklinga á aldrinum 18-40 ára sem greinast með krabbamein en á ári hverju eru það um 70 einstaklingar. Verkefnið fór af stað í tilefni af 50 ára afmæli Krabbameinsfélags Borgarfjarðar.

Sokkarnir líkjast helst gömlu góðu sjónvarpssokkunum þar sem hólkur er prjónaður hælalaus. Ístex gaf garnið Spuna til þessa verkefnis, það eru því ekki eingöngu hlýir sokkar heldur eru þeir líka mjúkir. Framköllunarþjónustan í Borgarnesi var sérstakur stuðningsaðili við framgang verkefnisins.

Í kringum 500 sokkapör voru prjónuð í verkefninu árið 2020 en sokkarnir fara í gjafapoka sem Kraftur gefur öllum þeim sem greinast með krabbamein á aldrinum 18-40 ára.

Við þökkum öllum þeim sem lögðu hönd á lykkju í þessu verkefni.