Í tilefni af 25 ára afmælisári Krafts höfum við gefið út veglegt 80 síðna afmælisblað sem er stútfullt af áhugaverðum viðtölum, umfjöllunum og öðru efni.
Má þar nefna viðtal við Tómas Þór Þórðarson sem segir frá reynslu sinni að vera unnusti ungrar konu sem greinst hefur með ólæknandi krabbamein og þeim áskorunum sem þau standa frammi fyrir. Viðtal við Ástrósu Rut Sigurðardóttur sem varð ekkja einungis þrítug að aldri með barnunga dóttur. Hún segir í viðtalinu frá reynslu sinni, hvernig lífið breyttist, hvernig hún sleppti tökunum og leyfði sér að verða ástfangin á ný. Guðrún Jónsdóttir leyfir okkur að sjá myndir frá útlitslegu breytingunum sem áttu sér stað hjá henni í krabbameinsmeðferð sinni en hún tók daglega ljósmyndir af því ferli og segir okkur frá sinni reynslu. Við skyggnumst inn í líf stofnfrumugjafa en Sigurbjörg Erna fór í stofnfrumuskipti með blóði úr beinmerki sínum til að lækna hvítblæði Hlyns bróður síns. Að auki er viðtal við Mounu Nasr sem greindist með brjóstakrabbamein einungis 30 ára gömul á stríðsátaka svæði í Sýrlandi. Hún býr nú á Íslandi og deilir sögu sinni með okkur til að veita öðrum innblástur. Viðtalið við Mounu má finna í blaðinu á bæði íslensku og ensku.
Við fengum líka Áslaugu Kristjánsdóttur kynfræðing til að segja okkur hvaða áhrif krabbamein og meðferðir geta haft á kynlíf og hvað nánd skiptir miklu máli í sambandi fólks. Við heyrðum í Írisi Björk og Ingu Dóru hjá Veru Design sem eru í samstarfi við Kraft um hönnun á skartgripum til styrktar félaginu. Hildur Björk Hilmarsdóttir, stofnandi félagsins segir okkur líka frá upphafi Krafts og hvernig það er að fylgjast með afkvæminu Krafti vaxa úr grasi og tókum við viðtöl við nokkra félagsmenn sem hafa áður verið í viðtölum í Kraftsblöðum. Að auki fengum við að skyggnast inn í líf nokkurra félagsmanna og kraftaverkabarna þeirra.
Þetta og margt fleira sem snýr að starfsemi Krafts er að finna í þessu veglega afmælisblaði Krafts!
Blaðinu er dreift á þó nokkrar N1 stöðvar um land allt og getur fólk gripið það með sér, ýmsar heilbrigðisstofnanir landsins fá einnig blað til sín sem og félagsmenn Krafts og fleiri. Blaðið má lesa hér á netinu í heild sinni en ekki hika við að senda okkur tölvupóst ef þú vilt fá blaðið sent til þín.
Blaðið er ein af fjáröflunarleiðum félagins og erum við ævinlega þakklát öllum þeim fyrirtækjum sem styrktu okkur með auglýsingum og styrkarlínum.
Eftirfarandi sáu um blaðið í ár:
- Ábyrgðarmenn og ritstjórar: Laila Sæunn Pétursdóttir, Róbert Jóhannsson og Þórunn Hilda Jónasdóttir
- Umbrot: Hrefna Lind Einarsdóttir
- Forsíðumynd: Þórdís Reynisdóttir
- Prófarkalestur: Guðlaug Birna Guðjónsdóttir
- Prentun: Prentmet-Oddi ehf.