Valdimar Högni Róbertsson sem er rétt að verða 9 ára, heldur úti hlaðvarpi og útvarpsþætti um krabbamein á Rás 1 og Krakkarúv: Að eiga mömmu eða pabba með krabba. Róbert, pabbi Valdimars, greindist nýverið með krabbamein sem reyndist það mikið áfall fyrir Valdimar og hann grét sáran en svo ákvað þessi flotti og ákveðni strákur að búa til hlaðvarpsþætti til að hjálpa sér og öðrum að læra meira um krabbamein.
Valdimar á fjögur systkini ef kötturinn, Snúður, er tekinn með inn í myndina og er þá næstyngstur þar sem kisinn er um þriggja ára. Hann er í þriðja bekk í Seljaskóla og er augljóslega fróðleiksfús og vill miðla sinni reynslu áfram. „Pabbi vinnur á RÚV og sama kvöld og hann greindist þá spurði ég hvort hann gæti ekki bara talað við Krakkarúv svo það væri hægt að fræða krakka meira um krabbamein. Við fórum svo saman í tvö atvinnuviðtöl og ég fékk vinnuna og við byrjuðum að taka upp,“ segir Valdimar. Það er búið að taka um tvo mánuði að taka upp þættina en þeir eru gefnir út vikulega á Krakkarúv og eru einnig útvarpaðir á Rás 1 á þriðjudögum. „Við tökum stundum upp nokkra viðmælendur í einu en í heildina verða þættirnir sex. Ég á bara eftir að taka upp síðasta þáttinn og þá ætlum við að biðja þau sem hlusta á að senda okkur spurningar sem þau vantar svör við en það er hægt að senda okkur spurningar á samfélagsmiðlum eins og Facebook, Twitter og Instagram,“ segir Valdimar.
Það er ekki hægt að skilja mikið í þessum sjúkdóm!
„Mér fannst mjög skrýtið að heyra að pabbi væri með krabbamein og ég spurði strax hvort þetta væri krabbamein eins og amma fékk en pabbi sagði að svo væri ekki og það væri ekki eins hættulegt. En krabbamein er víst ekki alltaf eins, þau eru lík en ekki eins. Jakob, krabbameinslæknir, sem var í fyrsta þættinum mínum, sagði að kannski þyrftum við bara ný orð því að krabbamein eru svo ólík. Ég á rosalega erfitt með að skilja þetta, það er ekki hægt að skilja mikið í þessum sjúkdómi en vegna þess að ég veit ekkert um þetta þá get ég spurt alls konar spurninga og þá geta líka aðrir fræðst því ég vil að þetta sé fræðsluþáttur fyrir börn og aðra aðstandendur,“ segir Valdimar.
Valdimar undirbýr þættina þannig að fjölskyldan sest saman niður og fer yfir hvað sé gott að vita um krabbamein og hverjir væru góður viðmælendur. Pabbi hans hringir svo í viðmælendur en Valdimar talar svo við það. „Pabbi er svona umboðsmaður en það er ég sem tala við fólkið og það hefur enginn sagt nei við að koma í þáttinn.“ Þriðji þáttur var rétt í þessu að fara í loftið en í honum fékk Valdimar, Helgu Jónu Sigurðardóttur, iðjuþjálfara og fjölskyldumeðferðarfræðing hjá Ljósinu og Höllu Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra Krabbameinsfélagsins í hljóðverið til sín. Fyrir hefur Valdimar tekið viðtal við pabba sinn og Tómas, krabbameinslæknir sem og Arnar Svein Geirsson, varaformann í Krafti, en mamma hans greindist með krabbamein þegar hann var ungur.
„Viðtalið við Arnar var lengsta viðtalið sem ég hef tekið en Jói, tæknimaður, vildi ekki klippa það því það er svo gott viðtal. Ég er líka búinn að taka upp íþróttaþátt þar sem ég tók viðtal við Mist Edwardsdóttur, fótboltakonu sem greindist 23 ára með krabbamein, og Kára Kristján Kristjánsson, handboltamann í Vestmannaeyjum sem hefur tvisvar greinst með krabbamein. En þau héldu áfram að æfa þó þau væru í krabbameinsmeðferð,“ segir Valdimar. „Ég vildi að krakkar lærðu að þó þú greinist með krabbamein einhvern tímann í framtíðinni þá þarftu ekki að hætta því sem þér þykir skemmtilegt og þú getur haldið áfram,“ bætir Valdimar við.
Fær mikið hrós og athygli
Valdimar er vissulega búinn að vekja mikla athygli og hefur farið í viðtöl bæði í Kastljósinu og á Hringbraut. Hann segist fylgjast mikið með hversu margir eru að hlusta á hlaðvörpin og segir að þættirnir sínir séu efstir í hlaðvarpi Krakkarúv sem þýðir að það sé mest hlustað á þá. Hann viðurkennir að hann hafi alveg hlustað á suma þættina oftar en einu sinni en krakkarnir í skólanum eru líka að hlusta á þættina í hópatímum og þá labbi hann líka á milli þeirra til að útskýra þættina. „Ég hlakka samt alveg til að klára þættina því þá fæ ég ekki alltaf mínus fyrir heimanámið því þáttaundirbúningurinn tekur oft svolítin tíma frá mér. Mig langar samt alveg líka að halda áfram með fleiri þætti og þá vil ég fá aðra viðmælendur og spyrja þau sömu spurninga því stundum skilja krakkar kannski ekki svör frá einum en skilja einhvern annan betur,“ segir Valdimar að lokum en hann sér alveg fyrir sér að vinna í útvarpi og við hlaðvörp meira í framtíðinni enda finnist honum það mjög skemmtilegur og fræðandi vettvangur.