Skip to main content

Að greinast með krabbamein er erfitt og hvað þá að verða svo ófrjór

Lífskraftur stendur fyrir vitundarvakningu og söfnun til stuðnings fjölskyldum og einstaklingum sem glíma við krabbamein og ófrjósemi í kjölfar krabbameinsmeðferðar. Þörfin fyrir stuðning er brýn og mikilvægt að tryggja bæði fræðslu og efla ferla innan heilbrigðiskerfisins.

Snjódrífurnar með G. Sigríði Ágústsdóttir, sem er jafnan kölluð Sirrý, í fararbroddi, standa að góðgerðarfélaginu Lífskrafti og Lífskraftsgöngum. Sirrý glímdi við krónískt krabbamein árum saman og þekkir vel þarfir einstaklinga í þeim sporum. „Ég greindist sjálf með krabbamein 37 ára gömul og þá búin að eignast fjögur börn. Það var auðvitað erfitt að greinast með krabbamein en að valið um að geta eignast fleiri börn hafi verið tekið af mér var óútskýranlega erfið tilfinning. Þetta hefur verið driffjöðurinn í þessu hjá mér og ég er viss um að þessi tilfinning hefði orðið 100% verri ef ég hefði verið t.d. 27 ára og barnlaus,“ segir Sirrý.

Miklar líkur á ófrjósemi

Á ári hverju greinast 70 ungir einstaklingar með krabbamein. Krabbameinið sjálft sem og krabbameinsmeðferðir geta í miklu mæli aukið líkur á ófrjósemi hjá þeim. „Það er náttúrulega galið að þurfa vera glíma við krabbamein og hvað þá ófrjósemi í kjölfarið. Því miður er enginn sem grípur þig innan kerfisins í dag, niðurgreiðslan varðandi tækni- og glasafrjóvganir og frjósemisverndandi meðferðir er skorið við nögl, það vantar fræðslu, aðgengi að upplýsingum, sálfræðiþjónustu og fjármagni. Lífskraftur vill breyta þessu og vonandi getum við með hjálp almennings og fyrirtækja í landinu safnað fyrir því,“ segir Sirrý.

Sirrý fann sinn lífskraft í baráttunni við krabbamein í fjallgöngum og með Lífskraftsgöngum vill hún minna á mikilvægi útivistar í þeirri vegferð. Stefnt var að því að ganga þvert yfir Snæfellsjökull til stuðnings átakinu ásamt yfir 100 konum en því miður varð að fresta þeirri göngu um ár vegna veðurs. En Snjódrífurnar halda þó ótrauðar áfram.

ÞÚ GETUR HJÁLPAР

„Nú er á brattann að sækja því ekki varð af göngunni í ár en við erum vissar um að fólk sé samt sem áður tilbúið að leggja okkur og Krafti lið og efla þá þjónustu og fræðslu sem ungir einstaklingar sem greinast með krabbamein þurfa á að halda,“ segir Sirrý.

Sérstakar bleikar Lífskraftshúfur voru settar í sölu í samstarfi við 66°Norður en þær eru nú uppseldar en hægt er að leggja inn pöntun.

Fyrirtæki og einstaklingar geta lagt Lífskrafti lið með því að leggja inn á reikning 0133-26-002986 – kt. 501219-0290, eða með AUR appinu í síma 789 4010 og með því að senda SMS í símanúmerið 1900

  • Sendið textann “LIF1000” fyrir 1.000 kr.
  • Sendið textann  “LIF3000” fyrir 3.000 kr.
  • Sendið textann “LIF5000” fyrir 5.000 kr.
  • Sendið textann “LIF10000” fyrir 10.000 kr.

Margt smátt gerir eitt stórt