Stafræna listagallerí-ið Apollo art seldi gjafabréf sem nýta mátti til kaupa á listaverkum nú fyrir jólin og rann andvirði gjafabréfanna til Krafts. Alls söfnuðust 500.000 krónur fyrir félagið sem Ellert Lárusson, framkvæmdastjóri Apollo art, afhenti Krafti nýverið.
„Við lögðum af stað í þetta verkefni rétt fyrir jólin og var frábært að sjá hversu margir fjárfestu í gjafabréfi sem Kraftur nýtur góðs af,“ sagði Ellert við afhendingu styrksins. Ellert missti æskuvin sinn og meðeiganda í Apollo art nýverið úr krabbameini og vildi leggja góðu málefni lið og minnast hans með þessum hætti á sama tíma.
„Það er svo gott að vita af samtökum eins og Krafti sem grípur fólk og veitir þeim stuðning á erfiðum tímum, bæði þeim einstaklingum sem greinast, sem og aðstandendum. Við vildum leggja okkar að mörkum til félagsins og því fórum við af stað með þetta verkefni fyrir jólin en höfum einnig hug á að gera meira í framtíðinni,“ sagði Ellert enn fremur.
Apollo art er fyrsta og stærsta stafræna listagallerí-ið á Íslandi og sýna þau og selja listaverk eftir yfir 130 þekkta og efnilega íslenska listamenn.
Stjórn og starfsfólk Krafts þakkar Ellerti og öllum viðskiptavinum Apollo art innilega fyrir stuðninginn.
Á myndinni má sjá Ellert afhenda Huldu Hjálmarsdóttur, framkvæmdastjóra Krafts styrkinn.