Hlaupahlópurinn FÍ Fjallahlaup ætlar að hlaupa boðhlaup hring eftir hring í 24 klukkustundir til styrktar Neyðarsjóði Krafts. Hlaupið verður í kringum Reynisvatn í sólarhring frá 3. desember kl. 16:00 til 4. desember kl. 16:00.
Þetta er annað árið í röð sem FÍ Fjallahlaup hleypur til styrktar góðu málefni á aðventunni en FÍ Fjallahlaup er æfingahópur innan Ferðafélags Íslands. „Okkur langar að láta gott af okkur leiða á aðventunni. Hlaupa og styrkja um leið gott málefni og hvetjum við alla til að heita á okkur með því að leggja inn á Neyðarsjóð Krafts. Við hlaupum með það í huga að Lífið er núna og hugsum um leið til allra þeirra sem krabbamein hefur haft áhrif á og þurfa á aðstoð okkar að halda,“ sagði Kjartan Long, þjálfari hlaupahópsins. „Ég ætla sjálfur að hugsa til vinkonu minnar hennar Eddu sem lést fyrir aldur fram úr krabbameini en hún hafði Lífið er núna slagorðið svo sannarlega í huga í sinni baráttu og veit ég að Kraftur var henni mikið innanhandar,“ bætti Kjartan við.
Hægt er að heita á hlaupahópinn með því að leggja inn á Neyðarsjóð Krafts bnr. 322-26-004135 kt. 571199-3009 og merkja framlögin Jólahlaup FÍ. Neyðarsjóðnum er ætlað að styrkja ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og lent hefur í fjárhagslegum erfiðleikum vegna veikinda sinna.
Eins og fyrr greinir mun hlaupahópurinn hlaupa í sólarhring og býður öllum áhugasömum að koma upp á Reynisvatn og hvetja hlauparana áfram með klappi og kertum til að lýsa upp skammdegið. Hver hlaupari hleypur í klukkustund hring eftir hring um Reynisvatn. Því nokkuð margir hringir sem hópurinn stefnir að því að ná og fullt af kílómetrum. Hópurinn vonar svo sannarlega líka að þónokkuð af fjármunum muni safnast í Neyðarsjóð Krafts og létta þar með undir með ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein.