Aría Sól Vigfúsdóttir varð 9 ára í dag 2. júní. Hún fékk frá foreldrum sínum skrifborð og tíuþúsund krónur í gjöf. En í stað þess að kaupa sér eitthvað fyrir peninginn ákvað hún að gefa Krafti afmælisgjöfina sína.
Upprunalega ætlaði Aría að snoða á sér hárið og gefa það í hárkollugerð en komst því miður að því að hárið er enn of stutt. Því brá hún á þetta ráð. „Ég sá það bara á Youtube að stelpur væru raka á sér hárið og gefa það og mig langaði líka að gera það,“ sagði hún þegar hún kíkti til Krafts. „Nú ætla ég bara að safna meira hári og ætla að láta verða af því að raka á mér hárið seinna,“ bætti hún svo við.
Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts, tók við styrknum frá Aríu og þakkaði henni innilega fyrir. „Það er svo einstakt að gefa afmælisgjöfina sína áfram og sér í lagi þegar maður er svona ungur. Margt smátt gerir virkilega stórt og með stuðningi sem þessum getum við hjálpað öðrum,“ sagði Hulda þegar Aría afhenti henni styrkinn.
Við í Krafti óskum Aríu innilega til hamingju með daginn og óskum henni velfarnaðar og hlökkum til að fylgjast með henni í framtíðinni.