Á dögunum fór Mansoor Ahmad Malik hjólandi frá Dublin til suður Englands ásamt félögum sínum. Tilgangur hjólaferðarinnar var að stuðla að hugtakinu „Múslimar fyrir frið“ og að safna fé á sama tíma fyrir góðgerðarsamtök.
Ferðin var farin dagana 20-24. júlí og ákvað Mansoor, sem er búsettur á Íslandi ásamt fjölskyldu sinni, að upphæðin sem hann myndi safna myndi renna til Krafts.
„Mig hafði lengi langað að gera eitthvað fyrir Kraft og þetta var frábært tækifæri. Ég náði að safna 361.000 kr. fyrir félagið“, segir Mansoor, ímam og forstöðumaður Samfélags Ahmadiyya-múslima á Íslandi.
Ferðin gekk vonum framar en hún hófst á 20 km hjólatúr frá Dublin, þaðan var farið með ferju yfir til Holyhead í Wales og þaðan var hjólað 92 km til Rhyl í grenjandi rigningu. Á degi tvö voru hjólaðir 200 km frá Rhyl til Birmingham, næsta dag 140 km til Oxford og þaðan var hjólað 90 km til Alton þar sem ferðinni lauk.
Við þökkum Mansoor kærlega fyrir veglegan styrk og sitt fallega framlag til Krafts!