Skip to main content

Hlauptu þína leið með Krafti!

Dagana 15. – 25.  ágúst eru landsmenn hvattir til að hlaupa sína eigin leið og safna áheitum fyrir góðgerðarfélög í ljósi þess að ekki er hægt að halda Reykjavíkurmaraþonið í ár. Fólk getur enn skráð sig til leiks til að hlaupa af krafti og safna áheitum fyrir félagið. Allir sem hlaupa fyrir Kraft geta komið í Skógarhlíð 8 og fengið hlaupabol sérmerktan Krafti og glaðning frá félaginu.  Hægt er að nálgast glaðninginn alla virka daga frá kl. 9-17 á skrifstofu Krafts til og með 25. ágúst.

Hlaupadagur Krafts

Laugardaginn 22. ágúst  frá klukkan 10 til 13 ætlar Kraftur að vera með hlaupadag í Elliðaárdalnum og hvetur hlaupara sem ætla að hlaupa fyrir félagið að taka þátt í þeim degi.  Við höfum mælt út leiðir í Elliðaárdalnum sem eru 600 metrar, 10 km og 21 km leiðir. Auðvitað munum við hlýða Víði og gæta tveggja metra reglunni í hvítvetna. Við brýnum því fyrir öllum að ef tekið er fram úr að taka stóran sveig fram hjá fólki. Ef þú ert að hlaupa fyrir Kraft og vilt nýta þér að hlaupa með okkur á þessum degi þá endilega skráðu þig hér. Ef þú ert að hlaupa fyrir Kraft erum við einnig með Facebook hóp – Ég hleyp af Krafti – þar sem við setjum inn allar frekari upplýsingar.

Hjálpaðu okkur að hjálpa öðrum

Áheitasöfnunin á www.hlaupastyrkur.is skiptir félag eins og Kraft afskaplega miklu máli og hefur starfsemi Krafts undanfarin ár stólað mikið á þá styrki sem koma í gegnum Reykjavíkurmaraþonið. Áheitasöfnuninni lýkur á miðnætti 26. ágúst og hvetjum við alla til að heita á hlaupara og hvetja þá þannig áfram.

Með ykkar hjálp getum við hjálpað öðrum