Í byrjun desember tók hlaupahópurinn FÍ Fjallahlaup, æfingarhópur á vegum Ferðafélags Íslands, sig til og hélt 24 klukkustunda boðhlaup í kringum Reynisvatn til styrktar Neyðarsjóði Krafts. Yfir 50 manns tóku þátt í boðhlaupinu ásamt vinum og vandamönnum og hvöttu þau aðra til að heita á sig og leggja málefninu lið með þeim hætti.
Hlaupararnir hlupu í heild 503 hringi í kringum Reynisvatn eða um 620 km og í heildina safnaðist 641.500 krónur í hlaupinu. „Þetta er í annað sinn sem við setjum á laggirnar svona góðgerðarboðhlaup og allir svo glaðir og kátir með að hlaupa til styrktar Krafti. Við vorum mjög heppin með veður. Það var kalt en stillt og fengu þau sem hlupu um nóttina meira að segja norðurljós til að lýsa leiðina fyrir sig en að sjálfsögðu vorum við líka vel búin með höfuðljós og neglda skó svo að allir voru á öruggum fótum,“ sagði Kjartan Long, þjálfari hlaupahópsins eftir hlaupið. Starfsmenn Krafts settu líka niður hvatningarskilti fyrir hlauparana hringinn í kringum vatnið til að þakka fyrir og hvetja þau áfram og minna þau að sjálfsögðu á að Lífið er núna og eins voru friðarkerti sem lýstu leiðina yfir dimmustu stundirnar.
„Við erum ótrúlega ánægð og stolt af því að hafa verið valin góðgerðarfélag hlaupahópsins í ár. Þvílíkur kraftur og jákvæðni sem er í þessum hópi. Við viljum þakka þeim og öllum sem hétu á þau innilega fyrir. Það er alls ekki sjálfgefið að fólk taki sig til í mesta skammdeginu og hlaupi hring eftir hring til styrktar góðu málefni. Þessir fjármunir munu svo sannarlega koma sér vel fyrir neyðarsjóð Kraft sem er ætlað að styrkja ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og lent hefur í fjárhagslegum erfiðleikum vegna veikinda sinna,“ sagði Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts.
Stjórn og starfsfólk Krafts þakkar öllum hlaupurunum og þeim sem hétu á þau innilega fyrir stuðninginn og óskar þeim öllum um leið gleðilegrar hátíðar og megi þau fara hlaupandi inn í kraftmikið nýtt ár.
Hér má sjá skemmtilegar myndir frá hlaupurunum