Börkur Þórðarson og Guðný Petrína Þórðardóttir hlupu nýverið tíu ferðir upp og niður fellið Þorbjörn við Grindavík til styrktar Krafti. Þau söfnuðu áheitum fyrir félagið og söfnuðu alls 607.000 krónum.
Það var nokkuð kalt og hvasst á meðan að Börkur og Guðný hlupu en þau létu engan bilbug á sér finna og hófu hlaup um klukkan 7 um morguninn og stóð það í um fimm tíma. Fullt af fólki bættist við í hlaupið þegar á leið morgun til að sýna samstöðu og taka þátt í söfnuninni. „Það var æðislegt að fá allt þetta fólk í fjallið að hlaupa með okkur. Við erum með sterkan hlaupahóp hjá 3N í Reykjanesbæ sem fylgdi okkur á fjallið sem hvatti okkur mikið áfram. Torg Fitness Iceland kom svo og var með stand fyrir hlaupara til að næra sig á meðan á hlaupinu stóð. Þetta heppnaðist allt mjög vel þrátt fyrir veður,“ sagði Guðný eftir hlaupið.
„Það að fólk sé tilbúið að leggja Krafti lið með þessum hætti og safna áheitum fyrir félagið er alls ekki sjálfgefið. Kraftur er alfarið rekinn af velvilja fólks og fyrirtækja í landinu svo að styrkur sem þessi hjálpar okkur afskaplega mikið. Við viljum þakka Berki og Guðnýju, öllum þeim sem hlupu með þeim og hétu á þau innilega fyrir ómetanlegan stuðning,“ segir Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts.
Myndir frá hlaupinu