Við erum í skýjunum yfir velheppnuðu núvitundarpartýi þar sem yfir 180 manns komu saman í núið föstudagkvöldið 20. september í Hörpu. Þarna voru börn og fullorðnir komnir saman að njóta þess að vera í núinu. Yoga Shala og Yoga Moves leiddu fólk í jóga, hugleiðslu og tónheilun. En undir miðbik kvöldsins fékk fólk útrás í dansi undir trylltum tónum frá plötustnúðunum DJ Margeir og YAMAHO.
„Þetta var alveg dásamleg kvöldstund og erum við ótrúlega ánægð hversu vel tókst til. Svona viðburður hefur aldrei verið settur upp með þessu sniði þar sem fólk kemur saman í jóga, dansi og núvitund til styrktar góðgerðarmál. Þarna var fólk að gefa sjálfu sér tíma í núinu og gefa af sér í leiðinni með því að styrkja Kraft“, segir Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts. Tómas Oddur og Ingibjörg Stefáns hjá Yoga Shala og Yoga Moves leiddu gesti í jóga sem síðar meir leiddi í dans. Stærstu plötusnúðar landsins, DJ Margeir og YAMAHO, spiluðu tónlist allt kvöldið sem undirstrikaði enn frekar stemninguna. Í lokin voru gestir leiddir í tónheilun og slökun.
„Við vorum snortin af því hversu vel viðburðurinn var sóttur og hversu falleg og skemmtileg stemning myndaðist í hópnum. Það var heiður fyrir okkur að fá að taka þátt í þessu verkefni. Það er greinilega kraftur í Krafti“, sagði Tómas Oddur eftir viðburðinn. Lífið er núna hafa verið kjörorð Krafts frá upphafi og var því sannarlega haldið á lofti með þessum viðburði.
Eftir kvöldið þáði fólk Ava og Kristal frá Ölgerðinni og Froosh til að svala þorstanum sér að kostnaðarlausu. Fólk gat líka prufað sýndarveruleikagleraugu frá Flow Meditation, kynnt sér starfsemi Yoga Shala og verslað vörur til styrktar Krafti. Allir sem komu fram á viðburðinum gáfu vinnu sína og þakkar Kraftur þeim öllum innilega fyrir.
Sérstakar þakkir fá 115 Security fyrir ókeypis bílastæði fyrir gesti, Harpa fyrir húsnæðið, Luxor fyrir búnaðinn fyrir plötusnúðana sem og Grænn Markaður, Blómaval, Blómabúðin Upplifun í Hörpu og Garðheimar fyrir blómin. Að auki þökkum við öllum fjölmiðlunum fyrir umfjöllunina, öllum sem dreifðu og kynntu viðburðinn á samfélagsmiðlum.
Hér má sjá myndir frá viðburðinum