Breytingar hafa orðið vegna skimana í brjóstum og leghálsi eftir að þær voru færðar frá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins til opinberra stofnanna á nýju ári. Nú verður konum ekki boðið í fyrstu skimun fyrir brjóstakrabbameini fyrr en þær eru 50 ára í stað 40 ára eins og hefur verið undanfarin ár.
Félagsmenn Krafts eru margir hverjir uggandi yfir þessum fregnum og koma þær verulega aftan að þeim. Landlæknir hafði áður lagt til að farið yrði eftir evrópskum leiðbeiningum við skipulag skimana fyrir krabbameinum en þar er mælt með skimun 45-49 ára kvenna. Fagráð um brjóstakrabbamein mælti einnig með því að hefja skimun við 45 ára aldur. „Við hreinlega skiljum ekki af hverju verið er að víkja frá bæði áliti fagráðs um brjóstakrabbamein og frá evrópskum leiðbeiningum. Fjölmargir félagsmenn og aðrir hafa haft samband við okkur vegna þessa og við krefjumst þess að það séu gefin skýr svör fyrir því að ekki var hlustað á álitsgjafa,“ segir Elín Sandra Skúladóttir, formaður Krafts.
Brjóstakrabbamein er algengasta krabbameinið hjá konum. Á tímabilinu 2015-2019 greindust árlega að meðaltali 31 kona á aldrinum 40-49 ára með brjóstakrabbamein. „Það skiptir gríðarlega miklu máli að greina krabbamein sem fyrst til þess að auka lífshorfur og takmarka íþyngjandi meðferðarúrræði. Það að krabbamein greinist á frumstigi getur bjargað mannslífum,“ segir Elín. Samkvæmt upplýsingum frá Embætti landlæknis munu konur á aldrinum 40-49 ára, sem hafa verið boðaðar í skoðun samkvæmt kerfinu sem var í gildi fyrir áramót, hafa val um hvort þær haldi áfram að koma í skoðun á tveggja ára fresti eða bíða til fimmtugs. „Konur hafa ekki fengið neinar tilkynningar um þessar breytingar og okkur þykja þetta afar undarleg vinnubrögð. Eins þarf að gera leiðbeiningar fyrir konur um hvaða áhættuhópum standi til boða skimun á aldrinum 40-49 ára við þær breytingar sem nú hafa tekið gildi,“ segir Elín enn fremur.
Stjórn Krafts vill einnig vekja athygli á því að biðtími eftir klínískum brjóstaskoðunum þ.e. skoðunum kvenna í kjölfar skimunar eða vegna einkenna er allt of langur. Evrópsk viðmið miða við skoðun innan 5 daga frá tilvísun. Nú er biðtíminn á Íslandi jafnan 5-6 vikur. Sú bið er engan veginn boðleg fyrir konur sem eru með einkenni í brjóstum og hver dagur getur skipt máli. Auka þarf aðgengi kvenna með einkenni í brjóstum að sérhæfðri þjónustu þar sem ljóst er að með breytingu á aldursmörkum skimunar eykst þörfin fyrir slíka þjónustu.
Við í Krafti fyrir hönd félagsmanna okkar krefjumst skýrari svara.