Í dag setti Kraftur nýtt hlaðvarp í loftið sem er í raun fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Í hlaðvarpinu er rætt opinskátt um krabbamein á mannamáli, bæði frá sjónarhorni þeirra sem greinst hafa með krabbamein, aðstandenda og annarra. Hlaðvarpið heitir Fokk ég er með krabbamein og er það vísun í LífsKraft, handbók fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur sem Kraftur gaf út á dögunum.
„Við tölum þarna um hlutina eins og þeir eru og erum ekkert að sykurhúða þá,‟ segir Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts. „Hlaðvarpið er hluti af afmælisársdagskránni okkar þar sem við gerum eitthvað spennandi í hverjum mánuði. Við munum vera með þátt á u.þ.b. tveggja vikna fresti í samstarfi við Herbert Geirsson hjá Primatekið. Reynsluheimur okkar félagsmanna er dýrmætur fyrir aðra sem lenda í sambærilegum sporum sem og þá sem vilja fá raunverulega mynd af því hvernig er að vera í þessum sporum hvort sem þú ert með krabbamein eða aðstandandi,‟ segir Hulda enn fremur.
Í fyrsta þættinum spjalla þau Hildur Björk og Daníel forsprakka Krafts ásamt Huldu um „fæðingu‟ Krafts og um mikilvægi jafningjastuðnings fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur. Kraftur fagnar 20 ára afmæli sínu um þessar mundir og það er skrítið að hugsa til þess að það hafi ekki verið til félag fyrir ungt fólk fyrir þennan tíma.
Hægt er að nálgast Fokk ég er með krabbamein hlaðvarpið inn á Spotify, itunes og vefsíðu Krafts