Í tilefni af Mottumars heldur Kraftur Kröftuga strákastund á Kexinu, þriðjudagskvöldið 12.mars frá kl. 19:30-21:00. Markmiðið með stundinni er að karlmenn sem þekkja krabbamein af eigin raun eða sem aðstandendur hvort sem maki, sonur, faðir, afi, vinur eða jafnvel samstarfsaðili hittist, deili reynslu sinni og heyri í öðrum jafningjum.
Einn af hverjum þremur fær krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni og snertir krabbamein fjöldann allan af aðstandendum þeirra. Það getur verið mjög gott að heyra í öðrum mönnum sem hafa reynsluna og heyra hvernig þeir hafa tæklað hlutina.
Reynsluboltar munu koma og segja frá.;
* Sóli Hólm, skemmtikraftur, segir frá sinni reynslu og sjokkinu við það að greinast með krabbamein og verkefninu að ná heilsu að nýju.
*Tómas Þór Þórðarsson, íþróttafréttamaður, mun segja frá sinni reynslu hvernig er að vera maki en konan hans greindist með mergæxli fyrir um tveimur árum síðan.
*Vinirnir Rafn Heiðdal og Skúli Andrésson munu segja frá því hvernig þeir tækluðu veikindi Rafns og hvernig áhrif það hafði á vinskap þeirra.
*Hilmar Orri Jóhannsson segir frá því hvernig var að greinast með eistnakrabbamein sem nýbakaður pabbi og í miðju háskólanámi og hvernig vegferðin hefur verið eftir krabbameinsmeðferðina.
Matti Osvald Stefánsson, heilsufræðingur og markþjálfi Ljóssins og Róbert Jóhannson, umsjónarmaður StrákaKrafts, munu leiða þessa kraftmiklu strákastund.
„Við strákarnir erum svo vanir að fara í gegnum erfiða tíma á hnefanum og tölum ekki um hlutina. Það hins vegar kemur bara niður á okkur og fólkinu í kringum okkur. Því er svo nauðsynlegt að hitta aðra í svipuðum sporum sem að skilja mann og því er mikilvægt að standa með sínum og mæta á þessa mögnuðu stund,“ segir Matti.
Í lok stundarinnar mun Valdimar Guðmunsddon stíga á stokk og taka nokkur lög.
Við mælum með að allir karlmenn standi með sínum og mæti á þessa flottu strákastund. Taki með sér vin eða vandamenn því flestir geta speglað sig í einhverjum af þeim reynsluboltum sem munu stíga fram og segja frá sinni reynslu.
Það er ókeypis á viðburðinn og einnig geta gestir mætt snemma og nýtt sér tilboð á mat og drykk á veitingastaðnum Flatus á Kex hostel.