Nú í október var birtur listi yfir þau 873 fyrirtæki sem hlutu viðurkenningu Creditinfo sem Framúrskarandi fyrirtæki 2019. Þar sem meira en helmingur fyrirtækjanna eiga í viðskiptasambandi við Landsbankann sendi bankinn öllum fyrirtækjunum hamingjuóskir með góðan árangur og veitti í þeirra nafni styrk að fjárhæð 3 milljónir króna til Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur.
„Við erum óendanlega þakklát fyrir þetta afskaplega rausnarlega framlag en styrkurinn mun svo sannarlega koma að góðum notum fyrir félagsmenn okkar,“ segir Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts.
Á ári hverju greinast 70 einstaklingar með krabbamein á aldrinum 18-40 ára og veitir Kraftur þeim einstaklingum sem og aðstandendum bæði fjárhagslegan og andlegan stuðning. „Styrkurinn mun fara í starfsemi Krafts er snýr að stuðningi, fræðslu og ráðgjöf fyrir félagsmenn okkar. Við þökkum Landsbankanum hjartanlega fyrir og óskum fyrirtækjunum öllum sem fengu viðurkenninguna til hamingju með árangurinn“, segir Hulda enn fremur.