Skip to main content

Lionsklúbbur Álftaness styrkir Stuðningsnetið

By 1. apríl 2025Fréttir

Kraftur fékk veglega gjöf frá Lionsklúbbi Álftaness á dögunum til styrktar verkefninu „Nútímavæðing Stuðningsnetsins“ en styrkurinn er veittur í tilefni þess að klúbburinn fagnar 40 ára afmæli um þessar mundir. Lionsklúbburinn ákvað í tilefni af afmæli sínu að styrkja starfsemi sem hjálpar ungu fólki, sem glímir við þungbæran vanda, að takast á við erfiðleika og sigrast á þeim.

„Okkur hjá Lionsklúbbnum finnst mikilvæg starsfsemi Krafts falla vel að markmiðum okkarnog þá sértaklega jafningjastuðningur Krafts sem veittur er í gegnum Stuðningsnetið. Ykkur hjá Krafti hefur lánast með Stuðningsnetinu að koma til móts við ungt fólk sem glímir við krabbamein, koma á kynnum milli manna, auka uppbyggileg tengsl og styrkja þannig einstaklinga í baráttu sinni við þennan vágest. Því var tekin ákvörðun um að afhenda Krafti 1.000.000 kr. með von um að styrkja þá nútímavæðingu sem þið vinnið nú að með því að innleiða stafræna sjálfvirknivæðingu Stuðningsnetsins“, segir Vilhjálmur Þórðarson, fromaður Lionsklúbbs Álftaness.

Jafningjastuðningur Kraftst hefur frá upphafi félagsins verið hjartað í starfseminni en formlegt Stuðningsnet var stofnað árið 2009 með þeim hætti sem það er í dag. Jafningjastuðningur sem veittur er í gegnum Stuðningsnetið er hugsaður fyrir ungt fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur. Þeir sem veita stuðninginn eru einstaklingar sem hafa greinst eða eru aðstandendur og hafa þeir allir lokið stuðningsfulltrúanámskeiði á vegum Krafts. Núverandi lausn krefst mikillar handavinnur af hálfu starfsmanna hjá Krafti og getur biðtími eftir stuðningsfulltrúa því oft verið langur fyrir félagsmenn. Mikilvægt er að nútímavæða Stuðningsnetið og einfalda ferlið með því að innleiða stafræna sjálfvirknivæðingu sem mun stytta biðtíma verulega, efla og útvíkka þjónustuna til muna.

Á myndinni má sjá  frá vinstri: Jóhann Kolbeinsson gjaldkera Lionsklúbbs Álftaness, Vilhjálmur Þórðarson, formann Lionsklúbbs Álftanes, Jens Bjarnason, tengiliður stjórnar Krafts og Þorgeir Magnússon, ritari Lionsklúbbs Álftaness.

Close Menu