Um tíma hafa nauðsynleg andhormónalyf fyrir konur sem lokið hafa meðferð við brjóstakrabbameini verið ófáanleg á landinu en samkvæmt nýjustu upplýsingum frá dreifingarfyrirtækinu Distica eru þau nú á leiðinni til landsins og verða fáanlega í apótekum í vikunni.
„Um leið og ég sá umræðuna inn á samfélagsmiðlum um að lyfin vantaði hafði ég samband við dreifingaraðilann Distica og Lyfjastofnun því það er náttúrulega óásættanleg staða að konur þurfi að vera víla og díla með lyfin sín á samfélagsmiðlum og vera stöðugt í ótta um að lyfin dugi ekki til. Samkvæmt samtölum mínum við Distica hefur Exemestan ekki verið til frá því í mars vegna erfiðleika í framleiðslu og hefur því verið vöntun á lyfinu á heimsvísu. Upplýst var um stöðu mála til Lyfjastofnunar í mars eins og ber að gera. En því miður kom Exemestan ekki á tilsettum tíma. Þeir skammtar sem til voru þá af Aromasin voru með skemmri fyrningartíma og var konum gefnar misvísandi upplýsingar í apótekum þegar þær komu þar til að sækja lyfin sín. Ég hvet lyfjaheildsala eindregið til að gefa lyfsölum í apótekum betri og skýrari upplýsingar um að hægt sé að panta lyf með skemmri fyrningu svo að allir átti sig betur á stöðu mála,“ segir Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts.
Algengt er að konur taki lyfin í fimm til tíu ár eftir að hafa lokið krabbameinsmeðferð til að minnka líkur á því að krabbameinið taki sig upp aftur. Lyfin valda tíðahvörfum og ýmsum öðrum aukaverkunum og geta lyfin farið misvel í konur. Misjafnt er hvaða lyf hentar hverri og einni og geta aukaverkanir verið mismunandi eftir því hvort verið er að taka Aromasin eða samheitalyfið Exemestan. Því er afar slæmt þegar konur neyðast til þess að taka inn það lyf sem síður hentar þeim og þurfi að vera flakka á milli lyfja og hvað þá að vera með eins konar skiptibókamarkað á lyfjum til að bjarga sér.