Kraftur fékk nýverið afhentan styrk upp á 500.000 krónur úr góðgerðarsöfnun Nettó, Notum netið til góðra verka. Stjórn Krafts ákvað að nýta styrkinn í formi gjafakorta í Nettó fyrir félagsmenn sína til að létta undir með þeim fyrir jólin.
Þetta er í annað sinn sem Nettó stendur fyrir góðgerðarsöfnuninni Notum netið til góðra verka sem lágvöruverðsverslun Nettó hleypti af stokkunum í byrjun nóvember. Styrkirnir voru afhentir félagasamtökum sem viðskiptavinir netverslunar Nettó völdu en það féll í skaut þeirra að ráðstafa 200 krónum frá Nettó, sem fylgdu með hverri pöntun, til góðgerðarfélags að eigin vali. Kraftur var eitt þeirra góðgerðarfélaga sem hlaut styrk og fór styrkveitingin nýlega fram í Nettó Mjódd.
„Það er ómetanlegt að fyrirtæki eins og Nettó styrki við góðgerðar- og styrktarfélög eins og Kraft. Þar sem við vitum að jólavertíðin krefst verulegs aukakostnaðar hjá fólki ákváðum við að láta styrkinn renna beint til þeirra félagsmanna sem þurfa mest á að halda fyrir jólin,“ sagði Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts eftir afhendingu styrksins. Félagsmenn í Krafti gátu sótt um að fá gjafakort frá Nettó í gegnum vefsíðu Krafts og var nýverið úthlutað nítján gjafakortum sem munu koma sér að góðum notum nú fyrir jólin. Alls voru átján einstaklingar sem hlutu gjafakort að verðmæti 27.000 krónur og einn félagsmaður sem hlaut gjafakort að upphæð 14.000 krónur
Stjórn og starfsfólk Krafts þakkar Nettó og viðskiptavinum þeirra innilega fyrir stuðninginn og þannig að hjálpa okkur að hjálpa ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum.
Á myndinni má sjá Gunnar Egil Sigurðsson, framkvæmdastjóra verslunarsviðs Samkaupa, og Ingibjörgu Ástu Halldórsdóttur, markaðsstjóra Samkaupa, afhenta Huldu Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóra Krafts styrkinn.