Skip to main content

Njóttu náttúrunnar af Krafti

Vegna samkomutakmarkana þá getum við í Krafti ekki verið með skipulagða viðburði núna í nóvember en við mælum eindregið með að fylgja reglum sóttvarnarteymisins því saman getum við komið í veg fyrir að þessi blessaða veira haldi áfram að dreifa sér.

Að sama skapi þá skiptir það miklu máli að horfa til þess sem við getum þó gert eins og að fara út og hreyfa sig og njóta útiveru. Það er bæði gott fyrir andlega og líkamlega heilsu. Því höfum við tekið saman nokkrar hugmyndir að göngu-, hlaupa- og hjólaleiðum, hugmyndir að fjallgöngum og frisbígolfvöllum bæði á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri. Við vonum að þið hafið gagn og gaman af og endilega sendið okkur mynd af ykkur að njóta útivistarinnar eða merkið okkur með myllumerkinu #kraftur eða #lífiðernúna.

Göngu-, hlaupa- og hjólaleiðir á höfuðborgarsvæðinu

Búrfellsgjá

Leiðin liggur frá Heiðmörk og er bílastæði við upphaf og enda leiðarinnar (sjá kort). Um það bil 6 km leið fram og til baka á malarvegi og gönguleið sem er á flestra færi. Lítil hækkun er á leiðinni nema ef farið er upp á Búrfellsgjánna sjálfa við enda gönguleiðarinnar en þar er um 50m hækkun.

Elliðaárdalurinn

Í Elliðaárdalnum er hægt að finna margar skemmtilegar leiðir sem bjóða upp á langar og stuttar göngur. Hægt er að velja um annað hvort malarstíga eða malbikaða stíga en einnig er gaman að fara í ævintýraleiðangur um skóglendið og skoða fallega fossa. Hér má sjá kort af ýmsum leiðum.

Heiðmörk

Í Heiðmörk eru fjöldi skemmtilegra leiða um skóglendið og er einstaklega gaman að rölta þar um og njóta náttúrunnar. Þú getur valið um að leggja á mismunandi stöðum í Heiðmörkinni og fara þaðan. Hægt er að fara inn í Heiðmörk annað hvort frá Rauðhólum og að Elliðavatni og þar í kring eða frá Garðabæ og Vífilstaðavatni. Hér má sjá kort með ýmsum leiðum í Heiðmörkinni.

Hólmsheiði

Það eru ýmsir malarstígar í Hólmsheiðinni sem hægt er að rölta um, hlaupa eða fara á fjallahjólum. Það er hægt að velja um að fara stíga frá Morgunblaðshöllinni eða frá Reynisvatni. Það eru því miður ekki til nein kort af gönguleiðum í Hólmsheiðinni en þú getur þá valið um að fara þá bara fram og til baka ef þú treystir þér ekki til að rata einhvern hring.

Öskjuhlíð

Í Öskjuhlíðinni eru fjöldinn allur af alls konar leiðum sem er hægt að fara og leyfa sér jafnvel að týnast í skóginum. Í leiðinni geta þú og þínir fræðst um hernámið á Íslandi og skoðað gömul byrgi en á vissum stöðum eru ýmsar fræðandi upplýsingar um þá tíma. Sjá göngukort hér.

Ýmis vötn í nágrenni Reykjavíkur

Það er þó nokkur vötn í nágrenni Reykjavíkur sem gaman er að rölta í kringum og njóta útivistar með vinum og vandamönnum. Þá er ekki vandamál að rata þær leiðir þar sem gönguleiðirnar eru í kringum vötnin. Þessar leiðir eru á flestra færi hvort sem er um lengri eða styttri fætur að ræða. Hér að neðan má sjá vötnin og hversu löng gönguleiðin er.

Elliðavatn – u.þ.b. 9 km

Hægt er að leggja víðsvegar nálægt vatninu og ganga allan hringinn eða fram og til baka. Strætó stoppar nálægt vatninu.

Hafravatn – ca. 5 km

Best að leggja hjá skátasvæðinu hjá Hafrafelli

Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði – ca. 2 km

Tvö bílastæði eru við vatnið.

Rauðavatn – u.þ.b. 3 km

Best er að leggja við Morgunblaðshöllina eða hjá bensínstöðinni í Norðlingaholti. Strætó stoppar líka þarna svo þú þarft ekki á bíl að halda til að fara í kringum Rauðavatn.

Vífilsstaðavatn í Garðabæ – ca. 2,5 km

Tvö bílastæði eru við vatnið.

Fjöll í nálægð við höfuðborgarsvæðið

Esja – að steini 550 m.

Esjan er nokkuð hátt fjall en margir velja það að fara upp að Steini en vegalengdin þangað er um 6 km fram og til baka. Þessi gönguleið er fyrir aðeins vanari fjallagarpa.

Helgafell í Hafnarfirði – hæð 338 m.

Uppgöngutími um 1-1,5 klst. Gönguhækkun 250 m. Göngulengd 2-3 km. Þægileg og skemmtileg stutt fjallganga með nokkrum bröttum köflum, öllum fær.

Helgafell í Mosfellssveit – hæð 215 m.

Uppgöngutími um 1 klst, gönguhækkun 100 metrar. Fín fjallganga fyrir alla og hægt að fara með börn.

Keilir – hæð 378 m.

Göngutími: 2-3 klst. Dálítið löng leið að fjallinu en auðveld ganga á gott og áberandi útsýnisfjall. Svolítill bratti sumstaðar.

Móskarðshnjúkar í Esju – 675 m.

Um 2-3 tímar að fara upp á fjallið. Þetta er nokkuð erfið ganga og betra að vera vanur fjallgöngum þegar farið er á þetta fjall.

Úlfarsfell – 275 m.

Þó nokkrar leiðir eru upp á Úlfarsfell. T.d. er hægt að leggja hjá Skógræktarsvæði Mosfellsbæjar, við Úlfarsfellshverfið eða í Mosfellsbæ. Hægt er að fara með strætó að fellinu.

Frisbígolfvellir á Höfuðborgarsvæðinu

Frisbígolf er að vera sívinsælla sport á Íslandi en það er hentugt að fara í frisbígolf núna á Covid-tímum þar sem hver og einn er með sinn frisbídisk eða frisbídiska. Hér má sjá alla frisbígolfvellina en við tókum út nokkra eftir bæjarfélögum á höfuðborgarsvæðinu en einnig eru margir skemmtilegir velli víðsvegar um landið.

Dalvegur í Kópavogi

10 brauta völlur með tveimur teigum á hverri braut. Völlurinn er í Kópavogsdalnum og liggur við hliðina á Dalvegi. Sjá kort.

Víðistaðatúni Hafnarfirði

Skemmtilegur 9 brauta völlur í Hafnarfirði. Sjá kort.

Vífilsstaðir í Garðabæ

10 brauta völlur sem er staddur á túninu fyrir framan Vífilstaði í Garðabæ. Sjá kort.

Klambratún í Reykjavík

9 fjölbreyttar brautir umhverfið Klambratún. Hentugur fyrir byrjendur og lengra komna. Sjá kort.

Valhúsahæð á Seltjarnarnesi

Skemmtilegur 9 brauta völlur þar sem fyrsta karfan er við Neskirkju á Seltjarnarnesi.

Seljadalur í Breiðholti

Þægilegur 9 brauta völlur sem hentar vel fyrir byrjendur. Sjá kort.

Útivist hjá Akureyri

Kjarnaskógur

Kjarnaskógur er eitt vinsælasta útivistarsvæði Akureyringa og hægt er að finna fullt af skemmtilegum leiðum þar hvort sem þú vilt ganga, hlaupa, hjóla eða fara á gönguskíði. Hér má sjá kort af svæðinu.

Naustaborgir

Fullt af skemmtilegum gönguleiðum eru hjá Naustaborgum sem eru líka tengdar Kjarnaskógi svo unnt er að tengja þær leiðir saman. Sjá kort af Naustaborgum og gönguleiðum.

Súlur (1.144 m)

Súlur er bæjarfjallið á Akureyri og er gaman að rölta upp á það en leiðin er samt nokkuð krefjandi. Lengd fram og til baka um 10 km og hækkunin er 905 metrar. Ekið er upp Súluveg og gengið frá bílastæðinu sem er við enda vegarins í Glerárdalnum. Sjá nánar hér.

Aðrar gönguleiðir

Fullt af öðrum gönguleiðum eru á Akureyri og í nágrenninu og má hér sjá upplýsingar um þær og lýsingar.

Frísbígolf á Akureyri

Eiðsvöllurinn

Skemmtilegur púttvöllur með stuttum brautum – Sjá kort af vellinum.

Hamarskotstún

9 brauta völlur við Þórunnarstræti hjá sundlauginni. Frekar stuttar brautir en krefjandi. Tveir teigar eru á hverri braut. Sjá kort af vellinum. 

Hamar

18 brauta völlur fyrir ofan tjaldsvæðið að Hömrum og nær völlurinn inn í Kjarnaskóg. Sjá kort. 

Háskólasvæðið

18 brauta völlur með þægilegum og stuttum völlum. Sjá kort af vellinum.

Önnur útivist

Fleiri hugmyndir að skemmtilegri útivist má líka finna á Hugmyndavef fjölskyldunnar.