Þá er veturinn mættur með öllum sínum notalegheitum, kertaljósum og kakó. Við hlökkum til að njóta með félagsmönnum í vetur og erum við með stútfulla nóvember dagskrá framundan. Við ætlum meðal annars að þeytast um á Buggybílum, skjótast norður þar sem NorðanKraftur verður með viðburð og eiga notalega fjölskyldustund í Höfuðstöðinni þar sem við málum kerti, fáum okkur kakó og piparkökur og auðvitað verður hópastarfið á sínum stað.
Það sem stendur þó helst uppúr í nóvember er Lífið er núna helgin okkar sem verður farin dagana 8-10.nóvember og er að þessu sinni haldin á Sveitasetrinu Brú í Grímsnesi. Á Lífið er núna helginni fá félagsmenn okkar tækifæri á að kynnast öðrum í svipuðum sporum og huga að því sem hlúir að og styður við lífsgæði þín. Áróra Helgadóttir mun sjá um að leiða vinnustofur og verður helgin uppfull af fræðslu, náttúru, upplifun, skemmtun og slökun.
Hópastarfið
Stuðningshópastarfið er komið á fullt og mun StelpurKraftur hittast 6. og 20. nóvember þar sem stúlkurnar munu fá erindi frá Dr. Erlu Björnsdóttur um betri svefn og fara í Silkitónheilun. StrákaKraftur hittist 13. nóvember þegar þeir skella sér í pílu á Bullseye og AðstandendaKraftur hittist 21. nóvember þegar Lóa Björk Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur hjá Ráðgjafaþjónustu Krabbameinsfélagins mun hitta hópinn og gefa nokkur góð bjargráð fyrir aðstandendur.
Að lokum viljum við upplýsa ykkur um að nú í nóvember hefjast aftur viðtalstímar á spítalanum og mun starfsmaður frá Krafti vera með viðveru þar einu sinni í mánuði á milli kl.10-11.