Þáttaröð 2 í hlaðvarpi Krafts – Fokk ég er með krabbamein – er nú að hefjast en nú er kominn nýr þáttastjórnandi; fjölmiðlakonan Sigríður Þóra Ásgeirsdóttir. Fókusinn í hlaðvarpinu verður enn að tala tæpitungulaust um krabbamein og allt sem því við kemur og vekja athygli á málefninu í leiðinni en með nýjum spyrli breytast þó líka oft áherslur.
Fyrsta þáttaröðin sem snillingurinn Herbert Mckenzie stýrði var fyrst og fremst gerð upp úr handbók Krafts; LífsKraftur – Fokk ég er með krabbamein, og samanstóð sú þáttaröð úr 13 ólíkum þáttum þar sem viðmælendur sögðu sínar sögur. Viðfangsefni fyrir hlaðvarpið eru óþrjótandi en í þessari nýju seríu verður haldið áfram þar sem frá var horfið og verða ýmsar reynslusögur sagðar og við svörum spurningum sem oft brenna á þeim sem lenda í þessum sporum, hvort sem þau hafa sjálf greinst með krabbamein eða eru aðstandendur.
Sigríður Þóra er mörgum kunnug en hún hefur verið viðloðin sjónvarp og þáttagerð í um áratug. Hún lærði heimildarmyndagerð í Los Angeles í Bandaríkjunum, var framkvæmdastjóri áramótaskaupsins og var ein af þáttastjórnendum EM stofunnar í Sjónvarpi Símans 2016. Einnig hefur hún komið að framleiðslu fyrir bæði Sjónvarp Símans, RÚV og Stöð 2. „Ég hef fylgst með starfi Krafts um árabil og finnst dásamlegt að geta lagt fram krafta mína til félagsins. Systir mín greindist með brjóstakrabbamein fyrir mörgum árum og ég missti dýrmæta vinkonu mína úr krabbameini fyrir um þremur árum síðan. Ég veit hvað það skiptir miklu máli að geta rætt um hlutina og það koma margar spurningar upp í kollinn á fólki þegar krabbamein er annars vegar. Því er einstakt að Kraftur haldi úti hlaðvarpi sem þessu,“ segir Sigríður Þóra. „Ég mun læra svo margt af þessu. Mér finnst ekkert skemmtilegra en að hitta fólk og heyra sögur þeirra. Ég hlakka mikið til að hitta þessa viðmælendur sem við höfum þegar sett niður á blað og læra af þeim,“ segir Sigríður Þóra enn fremur. Stefnt er að því að fyrsti þáttur í þessari nýju þáttaseríu fari í loftið 11. júní næstkomandi og að nýr þáttur fari svo í loftið á tveggja vikna fresti. Meðal umfjöllunarefna verða húmor og krabbamein, endurhæfing og mikilvægi hreyfingar, brca genið og krabbamein, sorgin, stefnumót og margt fleira en af nóg er svo sannarlega að taka. Hægt er að nálgast Fokk ég er með krabbamein hlaðvarpið inn á Spotify, iTunes og vefsíðu Krafts.
Starfsfólk og stjórn Krafts eru svo sannarlega heppin að fá Sigríði Þóru til liðs við sig en viljum við um leið þakka Herberti Mckenzie innilega fyrir allt hans starf í þágu félagsins og fyrir þá frábæru þáttaröð sem hann framleiddi fyrir Kraft.