Nú styttist í að árleg vitundarvakning okkar fari í loftið en herferðin er jafnframt stærsta fjáröflun sem félagið fer í. Markmið okkar með vitundarvakningunni er að veita fólki innsýn inn í þær áskoranir sem fylgja því að greinast ungur með krabbamein eða vera aðstandandi og þau langtímaáhrif sem það hefur.
Söluvara okkar í ár er glæsileg ný Lífið er núna húfa sem hægt verður að kaupa í vefverslun okkar og hjá góðum samstarfsaðilum á tímabilinu 22. janúar – 12. febrúar.
Af þessu tilefni bjóðum við til heljarinnar opnunarhátíðar, fimmtudaginn 23. janúar, kl.17:30 í verslun Rammagerðarinnar á Laugavegi 31, á 2. hæð (gamla Kirkjuhúsið) – Allir velkomnir!
Frumsýnd verður auglýsing vitundarvakningarinnar 2025, nýja Lífið er núna húfan verður kynnt til leiks og opnum við dyrnar að glæsilegri Tótu Van Helzing sýningu í húsi Rammagerðarinnar.
DJ Dóra Júlía heldur uppi stuðinu, en auk þess mun Jónsi, Hipsumhaps og Una Torfa koma fram. Fordrykkur í boði TÖST ásamt gómsætum bitum og að sjálfsögðu verður Lífið er núna húfan til sölu.
Lífið er núna dagurinn
Þann 30. janúar hvetjum við alla og fyrirtæki til að halda hátíðlegan Lífið er núna daginn en tilgangur hans er að minna fólk á að staldra við og njóta líðandi stundar.
Ekki bíða eftir “mómentinu” heldur skapaðu það þegar þig langar til!
Við hvetjum vinnustaði til að brjóta upp hversdagsleikann með því t.d. að hafa hrós-dag, vinaleik, mæta í sínu fínasta pússi eða bjóða upp á appelsínugular veitingar, hvetja starfsfólk til að fara í göngutúr í hádeginu og gera sér dagamun og huga að heilsunni.
Í tilefni dagsins hvetjum við alla og fyrirtæki til að gera appelsínu gula litnum okkar hátt undir höfði, brjóta upp daginn með appelsínugulum kaffiveitingum, skreyta heima og kaffistofuna í vinnunni, klæðast appelsínugulu og skapa minningar með sínu besta fólki. Það er ekki eftir neinu að bíða. Hægt er að nálgast ýmsan Lífið er núna varning til þess að skreyta með í vefverslun okkar.
Þau fyrirtæki sem hafa tök á að taka enn frekar þátt í deginum eru hvött til að lýsa upp byggingar sínar í skammdeginu með appelsínugulum tónum sem er litur Krafts.
Ef þið hafið áhuga á að taka enn frekar þátt í deginum með okkur þar sem ágóði af appelsínugulum vörum rennur til Krafts, erum við að sjálfsögðu opin fyrir þess háttar samstarfi. Endilega sendið fyrirspurnir á kraftur@kraftur.org
Litla Lífið er núna búðin á þinn vinnustað?
Viltu fá litlu Lífið er núna búðina á þinn vinnustað? Við getum kíkt í heimsókn með allskonar Lífið er núna varning – fyrstur bókar fyrstur fær. Endilega sendið fyrirspurnir á kraftur@kraftur.org