Skip to main content

Davíð Goði deilir reynslu sinni á Kröftugri strákastund

By 26. mars 2025mars 31st, 2025Fréttir

Ótrúleg lífsreynsla Davíðs Goða

Davíð Goði Þorvarðarson var 27 ára gamall þegar líf hans tók óvænta stefnu í mars í fyrra þegar hann greindist með óþekktan sjúkdóm. Davíð var hraustur, í sínu besta formi, starfaði sem kvikmyndagerðarmaður og lifði lífinu til fulls ásamt eiginkonu sinni. En svo gerðist eitthvað óútskýranlegt – Davíð fór að fá blinda bletti á annað augað, sem truflaði sjónsvið hans og leitaði til auglæknis. Það sem átti að vera venjulegur augnlæknatími varð upphafið að martröð. Læknirinn fann blóðtappa í augum hans, sem ollu varanlegri sjónskerðingu.

Í ítarlegri rannsóknum kom í ljós að hvítu blóðkornin voru allt að hundrað sinnum hærri í gildi en eðlilegt er. Við tóku fleiri rannsóknir og margir dagar af óvissu. Læknar töldu í fyrstu að um illvígt krabbamein væri að ræða eða blóðsjúkdóm. Það einkennilega var að Davíð hafði aldrei upplifað sig eins hraustann og á þessu tímabili og var alveg einkennalaus fyrir utan blettina á sjóninni. Læknar stóðu ráðþrota, ófærir um að greina hvað var að valda og var Davíð í mánuð inniliggjandi á spítalanum. Rannsóknirnar og spítaladvölin reyndu á líkama og sál en Davíð segir að jákvætt hugarfar hafi komið honum í gegnum flesta daga.

Læknar komust að því að Davíð væri með afar sjaldgæfan sjúkdóm, „Idiopathic hypereosinophilia with end organ damage“.

„Ég er sá eini á Íslandi sem hefur greinst með þennan sjúkdóm, einn af örfáum einstaklingum í heiminum og reyndar mögulega sá eini, en læknar fundu engin fyrri tilfelli sem voru nákvæmlega eins og mitt“, segir Davíð Goði.

Frá óvissu til kraftaverks – barátta, sigur og nýtt líf

Davíð var settur í ýmsar tilraunameðferðir, þar á meðal á lyf sem notuð eru við hvítblæði og öðrum blóðsjúkdómum. Sum lyf virtust hafa áhrif, önnur ekki. Að lokum, eftir þriggja mánaða tilraunavinnu, var gripið til örþrifaráða og Davíð sendur í lyfjameðferðar sem er í raun krabbameinsmeðferð, þrátt fyrir að hann væri ekki með krabbamein. Meðferðin var gífurlega erfið og hafði afdrifarík áhrif á líf hans en meðal aukaverkana var ófrjósemi. Það var mikið áfall fyrir þau hjónin sem voru að huga að barneignum og létu þau frysta sæði og fengu einn mánuð fyrir meðferð til að reyna að eignast barn.

„Að greinast með sjaldgæfan sjúkdóm vakti blendnar tilfinningar. Ég fann fyrir létti yfir því að þetta væri ekki hvítblæði, krabbamein eða æxli eins og læknar höfðu óttast. En hins vegar var erfitt að hugsa til þess að ég væri með sjúkdóm sem ekki var til nein þekkt meðferð við“.

Í dag halda ákveðin lyf sjúkdómnum í skefjum og er Davíð hraustur. Hann horfir fram á bjarta framtíð og fetar sig í nýju föðurhlutverki en þau hjónin eignuðust dreng í janúar á þessu ári – Kraftaverkabarn sem minnir á mikilvægi þess að halda í vonina.

Davíð sýndi ótrúlegan styrk og seiglu í öllu ferlinu, hann er einn af þeim sem hefur þurft að horfst í augu við dauðann, upplifað óvissu sem fáir geta skilið og staðið sterkari uppi. Hann mun ásamt öðrum hugrökkum drengjum segja frá sinni reynslu í kvöld á Kröftugri strákastund sem haldin er af Krafti stuðningsfélagi í tilefni af Mottumars. Viðburðurinn er opinn öllum karlmönnum og hefst kl.19:30–21:00 í Fantasíusalnum á 2. hæð á Vinnustofu Kjarval. Við hvetjum alla karlmenn til að taka þátt, jafnt þá sem hafa upplifað krabbamein sjálfir eða sem aðstandendur – hvort sem um ræðir maka, son, föður, bróður, frænda, afa, vin eða samstarfsmann, þá eruð þið allir hjartanlega velkomnir!

*Mottumars, er árlegt átak Krabbameinsfélags Íslands – Kraftur er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins

Close Menu