Á Hvítasunnuhelginni, laugardaginn, 4. júní tóku Borgnesingar og nágrannar sig til og perluðu af Krafti í Landnámssetrinu. Í kringum áttatíu manns komu og perluðu í lengri eða skemmri tíma og voru í heildina perluð 368 Lífið er núna armbönd.
„Þetta var einstaklega notaleg stund og mikil samkennd og náungakærleikur ríkti í loftinu,“ sagði Laila Sæunn Pétursdóttir, markaðs- og kynningarfulltrúi Krafts eftir perluviðburðinn. „Hingað komu bæði börn og fullorðnir og sátu og perluðu með okkur. Sumir sátu í um hálftíma meðan aðrir hátt í fjóra klukkutíma þó að blíðskaparveður væri úti. Við erum svo innilega þakklát öllum þeim sem lögðu leið sína til okkar og perluðu af Krafti“.
Öll Lífið er núna armböndin eru perluð af sjálfboðaliðum og eru seld til stuðnings Krafti og starfi þess í þágu ungs fólks sem greinist með krabbamein og aðstandendum. Armböndin eru til sölu í vefverslun Krafts.