Þann 12. maí næstkomandi ætlar Tólfan og Kraftur sem og allir Íslendingar að mæta í stúkuna á Laugardalsvelli og keppast við að setja Íslandsmet í perlun armbanda. Með því erum við einnig að sýna íslenska fótboltalandsliðinu stuðning í verki fyrir HM í Rússlandi. Um er að ræða ný perluð armbönd í fánalitunum með skilaboðunum Lífið er núna og eru þau alfarið seld til stuðnings Krafti, stuðningsfélagi ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum.
Í janúar var sett Íslandsmet í perlun þar sem perluð voru 3972 armbönd í Hörpunni. Nú ætlar Tólfan að gera gott um betur og hvetur alla Íslendinga að leggja sér lið og mæta í stúkuna á Laugardalsvellinum og hjálpast að við að setja nýtt Íslandsmet. „Við hjá Krafti erum virkilega þakklát Tólfunni fyrir að taka þátt í þessu verkefni með okkur og hvetjum alla Íslendinga til að mæta á svæðið og perla armbönd. Það verða ýmis skemmtiatriði á svæðinu og mikil Þjóðhátíðarstemning. Snilldar stund með fjölskyldu og vinum þar sem allir keppast við að leggja góðu málefni lið, sýna samstöðu og vonandi slá Íslandsmet. Við erum að sjálfsögðu inni í stúkunni svo enginn þarf að mæta með vettlinga og við verðum líka með veitingar á svæðinu“, segir Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts.
Fjölmargir listamenn munu koma fram á viðburðinum þar með talið Hreimur, Stefanía Svavars, Karlakórinn Esja, Sóli Hólm og landsliðsþjálfararnir Freyr og Heimir munu etja kappi við að perla armband og mun Gummi Ben lýsa keppninni á sinn einstaka hátt. „Við byrjum upphitun fyrir HM snemma þetta árið þar sem við vonumst eftir að fylla stúkuna bæði til þess að leggja þessu góða málefni lið og sýna landsliðsstrákunum okkar að við stöndum með þeim í einu og öllu. Það er aldrei að vita nema Tólfan taki fyrsta HÚ sumarsins á svæðinu“, segir Benjamín Hallbjörnsson, formaður Tólfunnar.