Skip to main content

Rakel María ráðin þjónustu- og viðburðastjóri

By 11. apríl 2025Fréttir

Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk með krabbamein og aðstandendur, hefur nú ráðið Rakel Maríu Eggertsdóttur í starf þjónustu- og viðburðastjóra félagsins. Hún hóf störf þann 1. apríl síðastliðinn og tekur við starfinu af Þórunni Hildu Jónasdóttur, sem hefur gegnt starfinu frá árinu 2022.

Rakel María starfaði áður hjá Virknimiðstöð Reykjavíkur þar sem hún leiddi teymi sem vann að því að bæta þjónustu við einstaklinga með flóknar stuðningsþarfir. Hún er með BA-gráðu í félagsráðgjöf og MS-gráðu í verkefnastjórnun frá Háskóla Íslands. Í námi sínu lagði hún sérstaka áherslu á stuðningsþarfir viðkvæmra hópa í samfélaginu og hvernig mætti mæta þeim á árangursríkan hátt.

„Ég hef ástríðu fyrir velferðarmálum og hef starfað lengi á því sviði, bæði í beinni þjónustu og sem teymisstjóri. Ég þekki af eigin raun, jafnt sem aðstandandi og sem ungur greindur einstaklingur, hversu mikilvægt starf Krafts er fyrir þá sem þangað leita. Ég hlakka til að nýta reynslu mína til að efla þjónustu enn frekar við félagsmenn Krafts“, segir Rakel María.

Í starfi sínu hjá Krafti mun Rakel María sinna mikilvægu hlutverki í að tryggja jákvæða þjónustuupplifun félagsmanna. Hún mun meðal annars bera ábyrgð á jafningjastuðningi sem veittur er í hópastarfi Krafts, skipulagningu viðburða fyrir félagsmenn og almennum samskiptum við félagsmenn.

Á sama tíma og við bjóðum Rakel Maríu velkomna til starfa, viljum við þakka Þórunni Hildu fyrir vel unnin störf, velvilja í garð félagsins og margar gleðistundir með samstarfsfólki og félagsmönnum 🧡 Við óskum henni velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi.

Fyrir hönd félagsins,
Sólveig Ása Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Krafts.

Close Menu