Í maí hélt Tónasmiðjan í Norðurþingi tónleikasýninguna „Lífið er núna – ROKKUM gegn krabbameini“ á Húsavík. Þar komu einstaklingar, einsöngvarar, stórhljómsveit og bakraddir saman og héldu glæsilega sýningu sem var jafnframt minningar- og styrktartónleikar. Tónleikarnir voru til minningar um fólk sem hefur látið lífið vegna krabbameins og voru þeir haldnir til styrktar Krafti.
Um 25 manns komu að sýningunni og var heiðursgestur hinn landsþekkti söngvari Páll Rósinkranz en þema sýningarinnar var rokk og ról frá gullaldarárum rokksins. Tónasmiðjan er skapandi starf fyrir ungt fólk í Norðurþingi og nágrenni og er rekin af forvarnasamtökunum ÞÚ skiptir máli. Fullt hús gesta var á sýningunni og söfnuðust alls 250.000 krónur til styrktar Krafti.
Stjórn Krafts þakkar innilega öllum þeim sem komu að og á sýninguna og sýndu samstöðu í verki og lögðu félaginu lið. Þannig hjálpið þið okkur að hjálpa öðrum.
Myndir frá viðburðinum