Skip to main content

Sól í hjarta á Sumargrilli Krafts

By 25. júní 2024Fréttir

Fimmtudaginn 20. júní hélt Kraftur árlega Sumargrillið sitt með stæl þar sem í kringum 120 manns komu saman og nutu skemmtunar og veitinga í rigningar veðri í Guðmundarlundi í Kópavogi. Þó veðrið væri blautt þá var fólk svo sannarlega með sól í hjarta og góða skapið.

Stórsveit Samma tók vel á móti fólki þegar það gekk inn í lundinn undir tónlistarveislu. Þá tók Leikhópurinn Lotta skemmtilegt atriði úr Ævintýraskóginum, Sirkus Íslands sá um andlitsmálun fyrir börnin sem og blöðrudýr og bauð upp á sjóðheitt popp sem vakti mikla kátínu viðstaddra. Reiðskólinn Hestalíf gaf börnum tækifæri á að láta teyma sig um á hestbaki og að sjálfsögðu voru hoppukastalar frá Exton og Instamyndir á svæðinu. Hamborgarabúlla Tómasar grillaði borgara ofan í alla viðstadda, Ölgerðin sá um drykki og Ísbíllinn kom og gaf mannskapnum ís í “blíðskapar” veðrinu. Bílaleigan Höldur og Dekurflutningar sáu svo til þess að hægt væri að koma herlegheitunum á sinn stað.

Diljá Pétursdóttir söngkona og DJ Gugga tóku lagið og Hr. Hnetusmjör toppaði svo sumargrillið með því að taka nokkur lög og fékk krakkana sem og fullorðna í lið með sér að kveikja í dansflötinni. Sérlega flott Sumargrill þar sem félagsmenn áttu góða stund með fjölskyldu og vinum sem sló í gegn enda frábær stemning og skemmtun í boði.

„Það er alltaf jafn gaman að skapa vettvang fyrir félagsmenn okkar til að koma saman og skapa góðar minningar og svo mikilvægt að börnin fá að taka þátt og upplifa góðar minningar tengt veikindum foreldra sinna.“ sagði Hulda framkvæmdastjóri í lok viðburðar.

Stjórn og starfsfólk Krafts vill þakka sjálfboðaliðum sem komu og aðstoðuðu, öllum þeim sem komu á Sumargrillið og að sjálfsögðu öllum þeim aðilum sem gerðu okkur kleift að halda þennan viðburð með velvilja sínum og hjálpsemi.

Hér má sjá nokkrar myndir frá þessum dásamlega degi.