Á alþjóðadegi gegn krabbameinum, þann 4. febrúar, ákváðu eigendur veitingastaðarins Krisp á Selfossi að láta 20% af öllum take-away pöntunum renna til styrktar Krafti. Að auki ákváðu starfsmenn Krisp að láta launin sín þann daginn renna til félagsins.
Sigurður Ágústsson, annar eigandi Krisp, greindist með beinmergsæxli í október og því er þeim málefnið mjög hugleikið. „Kraftur hefur veitt mér og Birtu, konunni minni sem er einnig annar eigandi Krisp, ómetanlegan stuðning eftir að ég greindist. Því vildum við leggja okkar að mörkum til félagsins því við erum Krafti svo óendanlega þakklát fyrir allt þeirra starf,“ sagði Sigurður við afhendingu styrksins.
„Þennan dag fékk ég hringingu frá einum starfsmanninum þegar ég var að undirbúa komu mína í vinnuna. Hann sagði mér að hann hefði stimplað sig út af vaktinni og að hann vildi að launin sín þann daginn myndu einni renna í söfnunina. Allir hinir starfsmennirnir fylgdu svo líka í kjölfarið. Ég fór bara að skæla af þakklæti. Það myndaðist einstök stemning hjá okkur og yndislegt hvað þau eru öll tilbúin að vera með okkur í þessu. Við erum eins og ein stór fjölskylda,“ sagði Birta.
Alls söfnuðust 147.000 krónur til styrktar Krafti sem Krisp fjölskyldan afhenti Huldu Hjálmarsdóttur, framkvæmdastjóra Krafts nýverið.
Stjórn og starfsfólk Krafts þakkar þeim innilega fyrir stuðninginn og sendir hlýhug til allra þeirra sem að söfnuninni komu. Um leið sendum við Sigurði, Birtu og fjölskyldu kraft og stuðning því á næstu dögum fer hann í stofnfrumumeðferð á Landspítalanum.