Skip to main content

Stórt skref í krabba­meins­for­vörnum

By 11. október 2024október 14th, 2024Fréttir

Stór áfangi er nú í höfn eftir að Will­um Þór Þórs­son, heil­brigðisráðherra und­ir­ritaði reglu­gerð þess efn­is að skimun fyrir krabbameinum í brjóstum verði gjaldfrjáls eða því sem næst. Gjaldið fer úr rúmum 6.000 krónum í 500 krónur. Breytingarnar voru kynnt­ar á blaðamanna­fundi í Brjóstamiðstöð Land­spít­al­ans við Ei­ríks­götu í þann 10. október. Um er að ræða lið í heild­ar­end­ur­skoðun á greiðsluþátt­töku.

Lækk­un komu­gjalds er talið mik­il­vægt skref í að auka þátt­töku í brjósta­skimun, sem hef­ur ekki verið nógu góð síðustu ár, en viðun­andi mæt­ing er skil­yrði fyr­ir ár­angri.

 

Um 200 kon­ur grein­ast ár­lega með brjóstakrabba­mein og um 50 lát­ast úr sjúk­dómn­um. Skimun er besta leiðin til að greina mein snemma en með skimun er hægt að greina mein á frum­stigi og auka þannig lífs­lík­ur. Íslensk gögn sýna að krabbamein sem greinast í skimun eru ólíklegri til að hafa komið aftur fimm árum síðar, en ef þau koma aftur eru þau almennt á vægara stigi og því viðráðanlegri. Af því má í stuttu máli draga þá ályktun að bæði lífshorfur og lífsgæði kvenna sem greinast með brjóstakrabbamein í skimun geti verið betri en þegar meinin greinast út frá einkennum.

“Þetta eru sannkölluð tímamót fyrir konur í landinu og í raun landsmenn alla. Krabbameinsfélagið hefur til margra ára barist fyrir því að brjóstaskimun væri gjaldfrjáls til að auka þátttöku kvenna og gera skimun aðgengilegri fyrir alla samfélagshópa óháð efnahag. Það var því sannarleg gleðistund þegar Willum heilbrigðisráðherra tilkynnti að brjóstaskimun myndi verða allt að gjaldfrjáls. Vonandi verður það til þess að konur mæti í skimun og lífslíkur þeirra kvenna sem greinast aukist”, segir Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts.