Ljósið og Kraftur héldu nýverið strákakvöld þar sem strákum á aldrinum 16-45 ára sem greinst hafa með krabbamein var boðið að koma saman, fræðast, snæða og hlusta á uppistandarann Ara Eldjárn.
Tæplega tuttugu strákar komu saman og fengu kynningu á starfsemi Ljóssins og Krafts. Ljósið er með ýmsan stuðning og þjónustu í boði sem og endurhæfingu fyrir krabbameinsgreinda en Kraftur býður upp á jafningjastuðning, markþjálfun, fjárhagslegan stuðning, samveru á jafningjagrundvelli og ýmsa aðra þjónustu.
Stuðningshópur fyrir stráka, StrákaKraftur, var formlega settur aftur á laggirnar um kvöldið. StrákaKraftur er stuðningshópur sem Kraftur heldur úti og er fyrir unga karlmenn á aldrinum 18 til 40 ára sem greinst hafa með krabbamein. Hópurinn hittist að jafnaði um einu sinni í mánuði og er í umsjón Gísla Álfgeirssonar, stuðningsfulltrúa í Stuðningsnetinu og félagsmanni hjá Krafti. Hægt er að sækja um inngöngu í Facebook hóp StrákaKrafts hér.
Næsti viðburður StrákaKrafts verður á Kexinu þann 4. nóvember næstkomandi og verður kynntur á næstu dögum.