Leikir, fjör og gleði!
Það var heldur betur líf og fjör í sumargleðinni okkar í Viðey þann 10. júlí þar sem um 50 manns komu saman og skemmtu sér. Ferðin hófst á Skarfabakka með stórvinum okkar hjá Eldingu sem ferjaði hópinn yfir í Viðey. Veðrið var þokkalegt og gátu allir notið sín úti í allskyns leikjum og keppnum á milli þess sem var sungið og trallað með trúbadornum Tryggva Vilmundar og gúffað í sig grilluðum hamborgurum.
Ekki skemmdi það fyrir að Stöð 2 leist svo vel á sumargleðina okkar, að fréttamaður ásamt tökumanni mættu út í eyju og voru með beina útsendingu frá gleðskapnum í fréttatíma sínum. Hún Kristín okkar tók létt spjall og sagði frá því helst sem Kraftur gerir og mikilvægi þess að félagsmenn og fjölskyldur þeirra fái tækifæri á viðburðum sem þessum til þess að koma saman og skapa fallegar minningar.
„Okkur hjá Krafti þykir mjög mikilvægt að halda uppi starfi sem þessu. Félagsmenn okkar segja það, að fá að vera í kringum aðra félagsmenn sem eru í sömu sporum, gefi þeim alveg gríðarlega mikið. Við hjá Krafti erum mjög þakklát fyrir að vera í þeirri stöðu að geta skapað viðburði sem þessa fyrir félagsmenn okkar og hlökkum alltaf til að hitta fólkið okkar“, sagði Kristín Lilja Sigurðardótti, verkefnastjóri.
Starfsfólk og stjórn Krafts vill þakka sjálfboðaliðum sem voru með okkur yfir daginn, öllum þeim sem mættu í sumargleðina og að sjálfsögðu þeim aðilum sem gerðu okkur kleift að halda þennan viðburð með velvilja sínum og hjálpsemi en það eru Elding, Myllan, Iðnmark, Tryggvi Vilmundar og Kjötbúðin.
Hér má sjá nokkrar myndir frá þessum dásamlega degi.