Fimmtudaginn 23. júní hélt Kraftur árlega Sumargrillið sitt með stæl þar sem í kringum 200 manns komu saman og nutu skemmtunar og veitinga í fallegu veðri í Guðmundarlundi í Kópavogi.
Fjöllista- og sirkushópurinn Hringleikur var með sirkus- og loftfimleikaatriði, Sirkus Íslands sá um andlitsmálun fyrir börnin sem og blöðrudýr og bauð upp á kandífloss sem vakti mikla kátínu viðstaddra. Reiðskólinn Hestalíf gaf börnum tækifæri á að láta teyma sig um á hestbaki og að sjálfsögðu voru hoppukastalar og Instamyndir á svæðinu. Hamborgarabúlla Tómasar grillaði borgara ofan í alla viðstadda og Ölgerðin sá um drykki.
Emmsjé Gauti toppaði svo sumargrillið með því að taka nokkur lög og fékk fullt af krökkum í lið með sér að hoppa á sviðinu og rappa. Sérlega flott Sumargrill sem sló í gegn enda frábær stemning og skemmtun í boði.
Stjórn og starfsfólk Krafts vill þakka sjálfboðaliðum sem komu og aðstoðuðu, öllum þeim sem komu á Sumargrillið og að sjálfsögðu öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við að gera Sumargrillið að svona frábærum viðburði án ykkar hefði þetta aldrei tekist.
Hér má sjá nokkrar myndir frá þessum dásamlega degi.