Team Auður hljóp nýverið í Reykjanesbæ til styrktar Krafti en þær hafa síðastliðin ár tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og valið hin ýmsu góðgerðarmál til að safna fyrir. Það eru um fimmtíu konur sem að mynda Team Auði en hópurinn var settur á laggirnar í minningu Auðar Jónu Árnadóttur, sem lést 9. desember 2012 eftir að hafa háð hetjulega baráttu við krabbamein.
„Við ákváðum nú að hlaupa fyrir Suðurnesjamærina Sóleyju Björg Ingibertsdóttur sem nýverið greindist með illkynja brjóstakrabbamein en við vitum að hún hefur nýtt Kraft mikið eftir að hún þurfti að takast á við þetta stóra verkefni. Við höfum fylgst með þessari flottu stelpu. Við dáumst að því hvað hún hefur verið opin og hreinskilin með sín veikindi og hefur í leiðinni kennt svo mörgum í kringum sig svo margt,“ sagði Lilja Sæmundsdóttur, dóttir Auðar. Hópurinn ákvað að leggja til ákveðna upphæð úr sjóðnum ásamt því að leggja til eigið fé og alls söfnuðust 392.000 krónur til styrktar Krafti.
„Við þökkum öllum í Team Auði innilega fyrir sem og öllum þeim sem lögðu hönd á plóg. Það er ómetanlegt að fá svona stuðning fyrir félagið en það er rekið fyrir velvild almennings og fyrirtækja í landinu. Við stöndum Team Auði svo sannarlega í þakkarskuld. Við óskum þeim alls hins besta og hlökkum til að fylgjast áfram með hópnum um komandi framtíð,“ sagði Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts eftir afhendingu styrksins.
Á myndinni má sjá konurnar úr Team Auður ásamt fjölskyldum frá Reykjavíkurmaraþoninu 2019