Nú yfir páskana ákváðu Árni Ásgeirsson og Georg Pétur Ólafsson að láta aflita á sér hárið og safna áheitum til stuðnings Krafti. Þeir gerðu svo gott um betur og hvöttu fólk enn frekar til áheita og ef þeir myndu ná að tvöfalda upphaflega markmiðið þá myndi þeir raka líka á sig mottur og lita þær svartar, sem af varð.
Ástæðan fyrir gjörningnum og áheitasöfnununni er að Anna Margrét Ólafsdóttir, kona Árna og systir Georgs, greindist með Hodgkins eitilfrumukrabbamein síðastliðið haust og hefur hún verið í meðferð í vetur. Strákarnir vildu láta gott af sér leiða fyrir Kraft og vekja athygli á málefninu í leiðinni. „Maðurinn minn var búinn að hóta þessu í smá tíma þ.e. að láta aflita hárið sitt mér til samstöðu þegar við vissum að ég myndi missa hárið. Svo varð ekkert af því en svo ákváðu strákarnir að láta slag standa og safna áheitum í leiðinni fyrir Kraft og þannig þakka fyrir þann stuðning sem við höfum fengið í ferlinu,“ segir Anna Margrét.
Strákarnir settu markið á 500.000 krónur þ.e. að þegar þeirri upphæð væri náð þá myndu þeir láta aflita á sér hárið. Söfnunin gekk hins vegar vonum framar og því ákváðu þeir að bæta um betur og hvöttu fólk til að tvöfalda upphaflega styrkupphæð og þá myndu þeir raka á sig mottur og lita þær. Eva Rut, mágkona Önnu, var ekki lengi að bera út boðsskapinn á samfélagsmiðlum og upphæðin tvöfaldaðist og gott um betur. „Mér fannst þau vera rosalega stórhuga í byrjun en svo finnur maður bara hvað það er gott að búa í litlu bæjarfélagi eins og í Stykkishólmi. Hólmarar hafa algjörlega staðið við bakið á okkur á þessum tímum og svo mikill hlýhugur í okkar garð. Fólki stendur alls ekki á sama og það hefur svo sannarlega sýnt sig. Við sendum þakklæti til ættingja, vina og allra þeirra sem lögðu söfnuninni lið hvaðan sem er af landinu,“ segir Anna Margrét enn fremur.
Strákarnir náðu að safna tæpum 1,3 milljónum króna og skarta nú aflituðu hári og dökkri mottu. Eva Rut fékk heiðurinn af því að lita strákana en hún er hárgreiðslukona í Stykkishólmi. Þau ákváðu í sameiningu að láta upphæðina renna í Neyðarsjóð Krafts sem styrkir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og hefur lent í fjárhagsörðugleikum.
Anna Margrét, Árni, Georg Pétur og Eva Rut vilja benda fólki á að það getur enn styrkt Neyðarsjóð Krafts eða starfsemi þess á vefsíðu félagsins þrátt fyrir að þeirra söfnun sé lokið.