Fimmtudaginn, 24. mars hélt Kraftur Kröftuga strákastund á Kexinu. Þetta var í annað sinn sem Kraftur heldur slíka stund fyrir karlmenn en um 30 strákar á öllum aldri voru samankomnir og hlýddu á reynslubolta deila sinni sögu.
Strákastundin var bæði fyrir stráka sem greinst hafa með krabbamein sem og þá sem eru aðstandendur. Markmiðið með kvöldinu var að miðla jafningjafræðslu og hvetja stráka til að koma saman, hlusta, deila eigin reynslu af krabbameini og áhrifum þess.
Reynsluboltarnir, Róbert Jóhannsson, Pétur Helgason og Arnar Sveinn Geirsson sögðu frá sínum reynsluheimi af krabbameininu, sem hefur haft áhrif á líf þeirra á mismunandi hátt. Í lok stundarinnar kom tónlistarmaðurinn Jónas Sig og tók nokkur lög og spjallaði um hvernig hann hefur notað textasmíð og tónlist til að yfirstíga erfiðleika í sínu lífi.
Strákarnir sem mættu voru sammála um að þetta var afar góð stund og mikilvægt að heyra reynslusögu annarra, finna að þeir standa ekki einir í baráttunni og hve dýrmætt það er að geta leitað í stuðning hvors annars. „Það gerir okkur karlmönnunum afar gott að hitta aðra karlmenn í sambærilegri stöðu, tala saman, hlusta á aðra, deila eigin reynslu og opna sig,“ sagði einn strákur eftir stundina.
Við viljum benda á að Kraftur heldur úti stuðningshópnum StrákaKrafti fyrir unga karlmenn á aldrinum 18 til 40 ára sem greinst hafa með krabbamein sem og stuðningshópnum AðstandendaKrafti fyrir aðstandendur sem eiga ástvin sem greinst hefur með krabbamein.
Starfsmenn og stjórn Krafts þakka öllum þeim sem deildu reynslu sinni sem og öllum þeim sem komu á þessa kraftmiklu strákastund. Eins þökkum við sérstaklega Perfect Gentleman og Krabbameinsfélaginu fyrir glaðninga fyrir strákana og Kex hostel fyrir að ljá okkur húsnæði og sýna okkur mikla gestrisni.
Hér má sjá myndir frá kvöldinu sem teknar voru af Antoni Brink