Skip to main content

Súsanna

Hæ ég heiti Súsanna og er 26 ára. Ég vinn á Lungnadeildinni á Landspítalanum en er reyndar í veikindaleyfi þar sem ég greindist í nóvember 2017 með fjórða stigs eitilfrumukrabbamein (lymphoma). Fyrstu greiningu fékk ég reyndar í maí þar sem ég greindist með hægvaxandi blóðkrabbamein sem birtist í húðinni og fór í UVA-ljósameðferð við því. Í október byrjaði ég aftur að fá roða í húðina og kom þá í ljós að krabbameinið var búið að stökkbreytast yfir í töluvert alvarlegra mein sem dreifir sér hratt. Eftir þá greiningu þurfti ég að fara strax í meðferð og fór í mína fyrstu lyfjagjöf aðeins viku eftir greiningu. Það er auðvelt að drepa þetta krabbamein með lyfjum en líklegt er að það komi aftur og því er það oft meðhöndlað með stofnfrumuskiptum en það á eftir að koma í ljós hvernig þetta verður með mig.

Ég hef ekkert grátið, verið leið eða reið og mér finnst þetta ekkert ósanngjarnt. Ég veit ekki hvort þetta séu eðlilegar tilfinningar en ég er samt búin að tala um þetta við sálfræðing. En þetta er bara partur af prófraunum lífsins, ég hugsa bara að allt gerist af ástæðu. Kannski hefði litla frænka mín fengið krabbamein ef ég hefði ekki tekið þetta verkefni að mér. Ég er fegin að þetta séu mín hlutskipti í lífinu en þetta sé ekki lagt á einhvern annan. Þannig hugsa ég jákvætt og það lætur mér líða vel. Hugarfarið skiptir svo miklu máli – maður hefur val hvort maður ætlar að brosa eða gráta í gegnum ferlið, sumir velja að vera í myrkrinu og ég ætla ekki að gera það. Ég ætla að sjá jákvæðu hliðarnar á þessu, fyndnu hliðarnar, ég veit t.d. ekkert skemmtilegra en að rugla í fólkinu í kringum mig með þetta: „ Mamma ætlarðu ekki að elda fyrir mig kvöldmat – ég er sko með krabbamein.“ Mér finnst skipta máli að hafa húmor fyrir alvarlegum hlutum eins og krabbameini en það hjálpar manni að brosa í gegnum þetta. Því segi ég: KRABBAMEINIÐ TÓK HEILSUNA MÍNA EN ÞAÐ FÆR ALDREI AÐ TAKA BROSIÐ MITT.

Deildu þinni reynslu og þinni mynd því krabbamein kemur öllum við eða deildu minni mynd og sögu #deilduþinnireynslu #krabbameinkemuröllumvið #lífiðernúna