Skip to main content

Hvernig tala ég við börn um dauðann?

Það fer eftir aldri barna hvernig þú talar við þau um dauðann. En það er mikilvægt að þau séu upplýst. Þegar líkur á bata eru afar litlar og líkamleg hrörnun ágerist þarf að segja börnunum frá því að krabbameinið sé komið á erfitt stig og að margir sem verði svona veikir deyi.
Athugaðu að það fer eftir aldri barna hvernig þau skilja dauðann:

  • Innan við þriggja ára skilja börn yfirleitt ekki hugtakið.
  • Þriggja til fimm ára líta þau oft svo á að dauðinn sé tímabundinn eða eins og svefn. Þau eru sjálflæg og telja að allt gott/slæmt sem gerist í kringum þau sé þeim að kenna.
  • Sex til tíu ára skilja að dauðinn er endanlegur en leita að ytri ástæðu eins og að verið sé að refsa þeim fyrir eitthvað sem þau hafa gert.
  • Tíu til tólf ára eru börn farin að skilja að dauðinn er órjúfanlegur hluti lífsins.

Börn þurfa iðulega að spyrja spurninga um dauðann. Það er afar mikilvægt að þau megi ræða um hann og að ekki sé þaggað niður í þeim. Hjálpið börnunum að kveðja og nýtið tímann sem þið eigið. Að útbúa myndbandsupptökur, skrifa bréf eða annað fyrir börnin og aðra sem eftir lifa getur verið dýrmætt. Sömuleiðis að þau fái að útbúa bréf, myndir og svo framvegis til að setja í kistuna. Börn hafa þörf fyrir líkamlegt og andlegt öryggi og næringu, skilning á því sem er að gerast og fullvissu um að það verði hugsað vel um þau þó svo að annað foreldrið falli frá. Það er mikilvægt að þau skilji að þótt ýmislegt breytist vegna aðstæðna þá verður séð til þess að þeirra þörfum verði sinnt. Til dæmis að þó að pabbi sæki ekki í leikskólann þá muni mamma gera það eða þó mamma geti ekki skutlað á æfingu þá muni frænka gera það og svo framvegis.

Reynslan sýnir að það er afar mikilvægt að leita til fagaðila eins og sálfræðinga og presta til að fá ráðleggingar og aðstoð með að tala við börnin um það sem framundan er. Þeir geta meðal annars líka gefið góð ráð hvernig hægt er að styðja barnið við þær breyttu aðstæður sem skapast eftir dauðsfall.

MERKINGAR:

FINNUR ÞÚ EKKI ÞAÐ SEM ÞÚ ERT AÐ LEITA AÐ?

Senda okkur póst Messenger Senda okkur spurningu