Ég heiti Stína og er 33 ára gömul, þriggja barna móðir. Ég er hársnyrtir að mennt en ákvað að setjast á skólabekk nú í febrúar og læra markþjálfun. Vegna veikinda mannsins míns þurfti ég að taka mér frí frá vinnu í 2 ár til að sinna honum og börnunum okkar.
Kiddi maðurinn minn greindist með heilaæxli árið 2006 , þá var ég einungis 21 árs og hann 24 ára. Ísak Þór elsti strákurinn okkar var þá 2 ára. Kiddi lifði í 11 ár eftir fyrstu greiningu sem er í sjálfu sér kraftaverk og segir mikið til um lífvilja og baráttuþrek Kidda. Á þeim tíma giftum við okkur, eignuðumst 2 börn til viðbótar og lifðum lífinu.
Eins og Kiddi sagði: „Allir sem að fæðast hérna á jörðinni eiga að njóta lífsins, maður veit aldrei.“ Meðan á veikindum hans stóð upplifði ég allt litróf tilfinninga sem hægt er að hugsa sér. Þess vegna er setningin mín: ÉG HLÆ HÆRRA OG GRÆT SÁRAR. Þetta er í raun sitthvor endinn á sömu tilfinningunni.
Ég er þakklát fyrir þau 15 ár sem ég og Kiddi áttum saman. Þetta hefur verið ótrúlega harður skóli sem gerir mig að þeirri manneskju sem ég er í dag.
Í dag er ég að reyna að ná áttum eftir fráfall Kidda í sumar og byggja mig upp og hlúa að börnunum okkar þremur. Það hvað ég syrgi Kidda sárt þýðir hvað ég elskaði hann mikið.
Deildu þinni reynslu og þinni mynd því krabbamein kemur öllum við eða deildu minni mynd og sögu #lífiðernúna #Kraftur #krabbameinkemuröllumvið