Nú stendur yfir átak Krafts, Krabbamein kemur öllum við, en það hófst þann 17. janúar og lýkur þann 4. febrúar. Tilgangur átaksins er að vekja athygli á málefnum ungs fólks með krabbamein og aðstandenda og afla fjár til að halda úti þjónustunni sem félagið veitir. Með átakinu vill Kraftur benda á þá staðreynd hvað krabbamein snertir marga með einum eða öðrum hætti. Ár hvert greinast 70 einstaklingar á aldrinum 18-40 ára með krabbamein og þess má geta að þriðjungur Íslendinga fær krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni.
Það alltaf mikið áfall fyrir ungan einstakling að greinast með krabbamein – og ekki síður er það áfall fyrir fjölskyldu hans og vini. Þá skiptir máli að félag eins og Kraftur sé til staðar og geti stutt fólk í þessum sporum. Hvort sem um er að ræða sálfræðiþjónustu, jafningjastuðning, endurhæfingu, fjárhagslegan stuðning eða styrk til lyfjakaupa.
Krabbamein kemur öllum við og til að sýna fram á það fékk Kraftur í lið með sér 22 einstaklinga til að stíga fram og deila þeirri reynslu hvernig krabbamein hefur snert þá. Birtar eru myndir af þessum ólíku einstaklingum með sín skilaboð skrifuð á spjald á samfélagsmiðlum á meðan á átakinu stendur. Liður í átakinu er hvatning til almenning að deila af sinni reynslu til að sýna enn fremur fram á hvað krabbamein snertir marga – hægt er að nota #krabbameinkemuröllumvið.
Fjáröflunarverkefni átaksins felst í því að selja nýtt perluarmband með slagorðinu Lífið er núna sem selt verður í átakinu okkar á meðan birgðir endast. Á lokadegi átaksins, 4. febrúar, á alþjóðadegi gegn krabbameini ætlar Kraftur að setja Íslandsmet í perlun armbanda í Hörpunni. Er það ákall okkar til þjóðarinnar að sem flestir leggi hönd á plóg og styðji við bakið á ungu fólki sem greinist með krabbamein og aðstandendum.